Innlent

Grunnskólakennarar velta fyrir sér aðgerðum

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
 Grunnskólakennarar eru orðnir langeygir eftir nýjum kjarasamningi og íhuga að grípa til aðgerða til að knýja á um að samið verði. Fréttablaðið/GVa
Grunnskólakennarar eru orðnir langeygir eftir nýjum kjarasamningi og íhuga að grípa til aðgerða til að knýja á um að samið verði. Fréttablaðið/GVa
Grunnskólakennarar íhuga að grípa til aðgerða til að knýja á um gerð nýs kjarasamnings við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Það styttist í skólalok og kennarar telja að hafi samningar ekki náðst áður en sumarfrí hefst muni lítið þokast við gerð nýs samnings fyrr en á nýju skólaári. Tíminn er því að hlaupa frá kennurum.

„Okkar fólk er farið að ókyrrast mjög og menn eru farnir að ræða hvort það þurfi virkilega að grípa til aðgerða. Það er í fyrsta skipti í langan tíma sem menn setja fram þær hugmyndir,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.



Grunnskólakennarar vísuðu kjaradeilu sinni við ríkið til sáttasemjara fyrir rúmum þremur vikum þar sem þeim þótti ekki nógu góður gangur í viðræðunum. Ólafur segir að rætt hafi verið um að gera langtímakjarasamning eða allt til ársins 2017. Markmiðið sé að jafna laun grunnskólakennara launum annarra háskólamenntaðra stétta sem hafi sambærileg laun og beri álíka ábyrgð.

„Það er verið að reyna að setja aukinn kraft í viðræðurnar. Okkar helstu viðmiðunarhópar eru að mestu búnir að semja svo línur eru að skýrast. Óvissuþáttunum er að fækka,“ segir Ólafur.

Framhaldsskólakennarar skrifuðu undir nýjan kjarasamning í síðustu viku, samkvæmt honum geta laun þeirra hækkað um allt að 29 prósent á samningstímanum sem er um tvö og hálft ár.

„Það þarf að hækka laun grunnskólakennara að minnsta kosti til jafns við framhaldsskólakennara. Að öðrum kosti dregur í sundur með þessum stéttum og það er ekki í boði,“ segir Ólafur.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt áherslu á að semja um breytingar á vinnutíma kennara með það að markmiði að einfalda hann.

Ólafur segir að það hafi verið rætt. Hins vegar vanti faglegan rökstuðning fyrir því hvers vegna eigi að fara út í að breyta vinnutíma kennara.



Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að viðræður við kennara snúist um ákveðnar kerfisbreytingar og launin séu hluti af þeim.

„Viðræðurnar eru í fullum gangi. Þetta þokast áfram,“ segir Inga Rún.

Hún segir að kjarasamningur Félags framhaldsskólakennara hafi verið til skoðunar. Það séu hins vegar allt aðrar aðstæður í grunnskólum en framhaldsskólum. „Þetta eru ólíkar skólagerðir,“ segir hún.



Grunnskólakennarar telja að þeir eigi inni allt að 30 prósenta launaleiðréttingu. 

Nýútskrifaður grunnskólakennari sem hefur umsjón með 12 til 19 nemendum fær 306 þúsund krónur á mánuði í dag. Ef hann fengi 30 prósenta launaleiðréttingu myndu laun hans hækka upp í um 400 þúsund krónur á mánuði á samningstímanum sem gæti orðið allt að þrjú ár.

Grunnskólakennari sem hefur kennt í 15 ár fær 361 þúsund krónur í mánaðarlaun. Ef hann fengi sömu launaleiðréttingu myndu laun hans hækka í tæpar 470 þúsund krónur á mánuði á samningstímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×