Innlent

Bætur á milli 40 til 90 þúsund krónur

Freyr Bjarnason skrifar
Flugfarþegar bíða í röð í stiga á Keflavíkurflugvelli í miðjum verkfallsaðgerðum á þriðjudag.
Flugfarþegar bíða í röð í stiga á Keflavíkurflugvelli í miðjum verkfallsaðgerðum á þriðjudag. Fréttablaðið/GVA
Nokkrar óformlegar fyrirspurnir frá flugfarþegum hafa borist Samgöngustofu vegna verkfallsaðgerða Isavia á Keflavíkurflugvelli á þriðjudag.

Formlegar kvartanir hafa ekki borist en þær er hægt að leggja fram ef farþegi telur sig ekki hafa fengið lögboðna úrlausn sinna mála hjá flugfélaginu sem hann ferðast með. „Flugfarþegar geta skotið máli sínu til okkar og við förum yfir það í framhaldinu og skerum úr um það,“ segir Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, aðspurð.

Samræmdar alþjóðlegar reglur frá Evrópusambandinu gilda um réttindi flugfarþega hér á landi. Reglugerð um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem er neitað um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður var innleidd á Íslandi fyrir tveimur árum. Flugmálastjórn Íslands [nú Samgöngustofa] ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar.

Allt fer það eftir aðstæðum hvort flugfarþegar eiga mögulega rétt á bótum. „Bætur eru ekki endilega borðleggjandi. Ef manneskja á pantað flug héðan og til dæmis til Mílanó með viðkomu í London fer það eftir því hvort hún hefur pantað allt á einum miða eða sjálf í gegnum netið,“ segir Þórhildur Elín. „Ef þú pantar miða alla leið með viðkomu einhvers staðar hjá sama flugfélagi ber það ábyrgð á þér en ef um mismunandi flugfélög er að ræða ber flugfélagið ekki ábyrgð á þér.“

Aðrar aðstæður sem geta komið upp eru að þeir farþegar sem eiga bókað far á þeim tíma sem verkfall stendur yfir eiga ekki rétt á bótum. Þeir farþegar sem eiga flug seinna um daginn sem seinkar vegna áhrifa verkfalls eiga aftur á móti hugsanlega rétt á bótum frá því flugfélagi sem þeir áttu bókað flug með.

Þau réttindi sem farþegarnir eiga hugsanlega eru máltíðir og hressing í samræmi við lengd þeirrar tafar sem verður á flugferðum. Þeir farþegar sem neyðast til þess að bíða í eina eða fleiri nætur eftir flugfari eða ef þeir neyðast til að bíða lengur en þeir gerðu ráð fyrir eiga rétt á hótelgistingu án endurgjalds.

Fari svo að flugfélagið sem farþeginn flýgur með eða Samgöngustofa samþykki bætur koma nokkrar upphæðir til greina. Bæturnar miðast við lengd flugsins og nema frá tæplega 39 þúsund krónum til rúmlega 93 þúsund króna fyrir farþegann.

Ef einstaklingur missir af flugi getur hann hugsanlega fengið bætur.

Upphæðirnar eru þrjár og eru miðaðar við lengd flugsins:

(A) 250 evrur, eða um 39 þúsund krónur, fyrir öll flug sem eru 1.500 km eða styttri.

(B) 400 evrur, eða um 62 þúsund krónur, fyrir öll flug innan EES sem eru lengri en 1.500 km og fyrir öll önnur flug á milli 1.500 og 3.500 km.

(C) 600 evrur, eða um 93 þúsund krónur, fyrir öll flug sem falla ekki undir a- og b-lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×