Lífið

Konur ættu að vera í lykilhlutverkum í kvikmyndabransanum

Marín Manda skrifar
Dögg Mósesdóttir, verkefnastjóri fyrir verkefnið Doris Film á Íslandi og Wift (Women in Film and Television)
Dögg Mósesdóttir, verkefnastjóri fyrir verkefnið Doris Film á Íslandi og Wift (Women in Film and Television)
Dögg Mósesdóttir hvetur konur til að taka þátt í handritasamkeppni á vegum Doris Film og Wift til að auka vægi kvenna í kvikmyndum.

„Okkar vantar fleiri sögur um konur. Þær hafa kannski ekki fengið næga félagslega hvatningu til að segja frá reynslu sinni því skilaboðin hafa oft verið sú að sagan sem karlmenn segi sé mikilvægari. Því þarf að hvetja þær áfram,“ segir Dögg Mósesdóttir, verkefnastjóri Doris Film-verkefnisins á Íslandi og Wift (Women in Film and Television) sem nú standa fyrir handritasamkeppni fyrir konur á öllum aldri.

„Þetta verkefni byrjaði árið 1999 í Svíþjóð þegar óskað var eftir handritum eftir konur og bárust yfir 400 handrit. Það var svolítið þvert á það sem Kvikmyndasjóður hafði sagt, að konur væru ekki í því að skrifa handrit,“ segir Dögg og heldur áfram:

„Þau verkefni sem verða valin núna eiga eftir að njóta sín mjög vel og munu gera sitt til að auka vægi kvenna innan kvikmyndageirans en sem betur fer er heimurinn að vakna til meðvitundar og óskað er eftir sögum sögðum frá sjónarhóli kvenna.“

Handritasamkeppnin er opin öllum konum og er beðið um eina tillögu að stuttmyndahandriti sem fyllir A4-blað. Keppnin er nafnlaus í fyrstu umferð og skilafrestur er til 1. maí næstkomandi.

Rafrænt umsóknareyðublað og nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Wift á Íslandi, wift.is, undir „um Doris“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×