Innlent

Konur geta ekki látið frysta ófrjóvguð egg

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Nokkrar fyrirspurnir hafa borist til ART Medica frá konum um hvort hægt sé að láta frysta þar ófrjóvguð egg.
Nokkrar fyrirspurnir hafa borist til ART Medica frá konum um hvort hægt sé að láta frysta þar ófrjóvguð egg. Vísir/Vilhelm
Karlar geta látið frysta sæðisfrumur hér á landi en konur geta ekki látið frysta ófrjóvguð egg. Sautján ára stúlka sem þarf vegna veikinda að fara í meðferð sem dregur úr getu eggjastokka til að framleiða egg getur ekki látið frysta egg sín. Það getur heldur ekki kona á fertugsaldri sem óttast að frjósemi hennar verði farin að minnka þegar hún finnur þann rétta.

Þessu vilja læknar á ART Medica ráða bót á. „Okkur finnst það spennandi og ákjósanlegt að konur geti látið frysta egg sín og við stefnum að því að koma þessari tækni upp hér þótt ekki sé kominn tímarammi á það hjá okkur,“ segir Snorri Einarsson, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, sem hefur sérhæft sig í ófrjósemi.

Norska ríkisútvarpið greindi nýlega frá því að tuttugu norskar konur hefðu farið til Svíþjóðar til að láta frysta egg á læknastofum þar. Konurnar vilja eiga egg ef þær finna ekki mann sem þær vilja eignast barn með áður en frjósemi þeirra fer að dala. Í Noregi er hægt að láta frysta egg vegna meðferðar sem getur haft þær afleiðingar að framleiðsla eggja minnki eða hverfi. Þar er hins vegar bannað að frysta egg af svokölluðum félagslegum ástæðum.

snorri Einarsson
„Ég held að það sé ekkert í íslenskum lögum sem bannar þetta. Það er kannski á gráu svæði hvort ástæðurnar eru félagslegar eða af læknisfræðilegum toga þegar konur eru að komast á aldur. Það er til dæmis leyfilegt að fá egg frá annarri konu ef frjósemin hefur dalað það mikið að ekki er fýsilegt að nota eigin egg. Það er þá spurning hvort það sé ekki bara fyrirhyggja hjá konu að vera búin að frysta niður egg þegar hún er 34 ára. Það er hugsunin sem býr að baki hjá þessum konum.“

Snorri getur þess að þegar karlar láta frysta sæðisfrumur sé það af praktískum ástæðum. „Ef hjón eru í frjósemismeðferð og eiginmaður er mikið frá vegna vinnu sinnar er ekki hægt að treysta á að hann sé til staðar þegar það hentar fyrir meðferðina að fá hjá honum sæðisfrumur. Þess vegna eru dæmi um að menn geri þetta. En það er auðvitað læknisfræðileg ábending fyrir meðferðinni sem slíkri.“



Á ART Medica er alhliða læknisþjónusta sem miðar að því að rannsaka orsakir ófrjósemi og veita meðferð við henni. Þar er jafnframt öllum almennum vandamálum vegna kvensjúkdóma sinnt.

Læknastofan er sú eina sinnar tegundar á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×