Innlent

Ítreka áhyggjur af slæmri stöðu geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Skipulagsbreytingar voru gerðar á geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
Skipulagsbreytingar voru gerðar á geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. fréttablaðið/kk
Barnageðlæknafélag Íslands (BGFÍ) hefur ítrekað áhyggjur sínar af stöðu geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga á Norður- og Austurlandi í tilkynningu frá félaginu.

Á síðastliðnu ári voru gerðar skipulagsbreytingar á geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni á svæðinu og í kjölfar þess sögðu yfirlæknir og sálfræðingur Barna- og unglingageðdeildar FSA upp störfum þar sem þrengt hafði verið að henni og hún síðan lögð niður. Gerðar voru tímabundnar ráðstafanir en óvissa ríkir enn um framhaldið. 

Í tilkynningunni segir að umfang þjónustunnar á Barna- og unglingageðdeild FSA var það mikið, að brýn þörf er á heildarlausn. Ólíklegt er að aðrar tengdar stofnanir á þessu sviði geti tekið það starf yfir án þess að það komi niður á annarri þjónustu. Sem dæmi eru biðlistar fyrir þjónustu á BUGL þegar allt of langir.



Félagsfundur BGFÍ leggst alfarið gegn öllum aðgerðum sem skerða þjónustu við börn og fjölskyldur og skorar á heilbrigðisyfirvöld að sameinast um að bæta starfsskilyrði barna- og unglingageðlækna og nauðsynlegra samstarfsaðila.

Fundurinn fer fram á að lausn verði fundin með samráði allra aðila sem veitt hafa og komið að uppbyggingu þjónustunnar síðastliðinn aldarfjórðung. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×