Innlent

Ætla sér leyfi til að nýta Þríhnúkagíg

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Selt hefur verið ofan í Þríhnúkagíg frá árinu 2012.
Selt hefur verið ofan í Þríhnúkagíg frá árinu 2012. Fréttablaðið/Vilhelm
Stefnt er að því að Þríhnúkar ehf. fái nýtingarleyfi til langs tíma við Þríhnúkagíg. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, lagði fram í bæjarráði.

Þrúhnúkar ehf. hófu sumarið 2012 að selja aðgang að hinni einstöku gíghvelfingu Þríhnúkagígs. Um þann rekstur var stofnað félagið 3H Travel.

Kópavogsbær er einn hluthafa í Þríhnúkum ehf. Á fundi bæjarráðs 13. febrúar síðastliðinn var að tillögu Ómars Stefánssonar framsóknarmanns samþykkt að fela bæjarstjóranum að ræða við forsvarsmenn 3H Travel og Þríhnúka ehf. um uppbyggingu og starfsemi á svæðinu. Ármann átti fund með Birni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Þríhnúka og 3H Travel, og ræddi einnig við Guðjón Arngrímsson, stjórnarformann félagsins.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann segir í minnisblaðinu að frá því að Þríhnúkar ehf. voru stofnaðir 2004 hafi verið unnið markvisst að því að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan almenningi. Í eitt og hálft ár hafi legið fyrir umsókn hjá Umhverfisstofnun vegna framkvæmda sem félagið vilji ráðast í.

Þá segir bæjarstjórinn að tilraun til að veita ferðafólki aðgengi að hvelfingunni hafi tekist vel og viðtökur gesta verið framar vonum. „Í framhaldi af því var ákveðið af stjórn beggja félaganna að halda þessari starfsemi áfram á sumrin enda ljóst að með henni hefur farið fram umfangsmikið kynningarstarf sem nýtast mun Þríhnúkum ehf. vel til framtíðar litið,“ útskýrir bæjarstjórinn og minnir á að ótal sinnum hafi verið fjallað um Þríhnúkagíg í fjölmiðlum í fjölmörgum löndum.

„Allt hefur þetta haft jákvæð áhrif á verkefnið og mun auðvelda fjármögnun á verkefninu og gera það fýsilegra til uppbyggingar. Þetta markaðsstarf auk annarra verðmæta mun að endingu verða eign Þríhnúka ehf. enda mun starfsemi 3H Travel ehf. leggjast af þegar framkvæmdir hefjast. Í þessu eru sennilega hagsmunir hluthafa Þríhnúka hvað mestir,“ segir í minnisblaðinu.

Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi.
Það er því ljóst að miklir hagsmunir eru í því fólgnir fyrir eigendur Þríhnúka ehf. að halda umráðum sínum yfir gígnum.

„Með fyrirvara um að allar athuganir leiði til jákvæðrar niðurstöðu hyggjast Þríhnúkar ehf. sækja um nýtingarleyfi svæðisins að undangenginni auglýsingu forsætisráðuneytisins. Búast má við því að nýtingarleyfi verði gefið út til langs tíma,“ segir í minnisblaðinu. Verði nýtingarleyfi gefið út til handa Þríhnúkum ehf. – líkt og að sé stefnt, þurfi að auka hlutafé félagsins. Reikna megi með að það geti orðið í haust.

Er bæjarstjóri hafði lagt fram minnisblað sitt lagði Ómar Stefánsson til að Kópavogsbær seldi hlut sinn í Þríhnúkum ehf. „Tel að hlutverki okkar sé lokið í þessu verkefni,“ bókaði bæjarfulltrúinn. Tillaga Ómars var síðan felld með sjö atkvæðum gegn einu í bæjarstjórn á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×