Innlent

Völdu langdýrustu vatnsrennibrautina

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Bið verður á kaupum á nýrri vatnsrennibraut fyrir Sundlaug Akureyrar.
Bið verður á kaupum á nýrri vatnsrennibraut fyrir Sundlaug Akureyrar. Fréttablaðið/Auðunn
Akureyrarbær hugðist kaupa vatnsrennibraut fyrir sundlaug bæjarins á 99 milljónir króna þótt fyrir lægju tvö meira en tvöfalt lægri tilboð.

Akureyrarbær bað í ágúst í fyrra átta fyrirtæki að taka þátt í „verðkönnun“ vegna fyrirhugaðra kaupa á vatnsrennibraut. Við mat á tilboðum átti að verð að gilda 50 prósent, útfærsla rennibrautar 45 prósent og útfærsla og afhendingartími 5 prósent. Þrjú tilboð með mismunandi útfærslum bárust. Þau voru frá Á. Óskarssyni ehf. upp á um 28 milljónir króna, frá Spennandi ehf. sem bauð ríflega 45 milljónir og rúmlega 99 milljóna tilboð frá Altis ehf. sem bærinn tilkynnti í desember að semja ætti við.

Spennandi ehf. kærði málið í janúar til kærunefndar útboðsmála. Í lok janúar hætti bærinn við kaupin. Kærunefndin segir ljóst að innkaupaferlið hafi ekki verið í samræmi við lög um opinber innkaup. Spennandi hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn hefði lögmætu innkaupaferli verið fylgt. Bærinn væri skaðabótaskyldur gagnvart Spennandi og ætti líka að greiða fyrirtækinu 450 þúsund króna kostnað vegna kærunnar.

Tilboð þriðja fyrirtækisins mun hafa verið um 28 milljónir króna en öll voru tilboðin með mismundandi útfærslum.

Nýtt útboð sem fara á fram samkvæmt lögum og reglum er nú hafið með skilafresti 24. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×