Innlent

Vill kynna stefnuna núna vegna umræðu um Evrópumál

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Utanríkisráðherra segir að ákveðið hafi verið að móta stefnu í Evrópumálum síðastliðið haust.
Utanríkisráðherra segir að ákveðið hafi verið að móta stefnu í Evrópumálum síðastliðið haust. vísir/stefán
 Ríkisstjórn Íslands kynnti í gær nýja Evrópustefnu með áherslu á skilvirka framkvæmd EES-samningsins.

Einnig er lögð áhersla á áframhaldandi sjálfstæð, virk og náin samskipti og samstarf við Evrópusambandið og aðildarríki. Í stefnunni áréttar ríkisstjórnin einnig mikilvægi þess að Ísland komi fyrr að mótun löggjafar á vettvangi ESB.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir tilvalið að kynna stefnuna núna vegna þeirrar miklu umræðu sem ríkir í samfélaginu um samskipti Íslands við Evrópu.

„Síðasta sumar þegar við tilkynntum að við ætluðum að setja viðræður við ESB í hlé þá tókum við fram að við vildum samt eiga gott samstarf við Evrópusambandið og Evrópuríki, og í haust var ákveðið að setja stefnumörkun í þeim málum.“

Í stefnunni er lögð rík áhersla á tvíhliða samstarf við önnur Evrópuríki, samráð við Noreg og Liechtenstein auk norræns og vestnorræns samstarfs. Gunnar Bragi tekur þó fyrir að tilgangur stefnunnar sé að styrkja stöðu Íslands sem lands utan Evrópusambandsins eða til að styðja við þingsályktunartillögu um að hætta aðildarviðræðum.

„Nei, alls ekki. Það er sérstök áhersla lögð á EES-samninginn og það kemur skýrt fram að við teljum Evrópusambandsríkin meðal okkar helstu samstarfsaðila. Þetta er mjög spennandi og öll ríkisstjórnin er einhuga að fara þessa leið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×