Innlent

Konur eru ósamvinnuþýðari hvor við aðra en karlar

Jóhannes Stefánsson skrifar
Ástæður þess að konur eru síður samvinnuþýðar við aðrar konur ef staða þeirra er ekki sú sama eru ekki kunnar.
Ástæður þess að konur eru síður samvinnuþýðar við aðrar konur ef staða þeirra er ekki sú sama eru ekki kunnar. Vísir/AFP
Konur eru mun ólíklegri en karlar til að vera samvinnuþýðar við einstakling af sama kyni ef konurnar njóta ekki jafnhárrar stöðu.

Þetta er niðurstaða rannsóknar sem birtist í fagtímaritinu Current Biology og var unnin í samvinnu vísindamanna við Harvard-, Emmanuel- og Quebec-háskóla. Ástæðan er ekki að fullu kunn, en að mati Ásgeirs R. Helgasonar, dósents við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík og Karolinska Institut er um flókið samspil líffræðilegra og félagslegra breyta að ræða.

Rannsóknin náði til allra útgefinna rannsókna við sálfræðideildir 50 háskóla í Bandaríkjunum yfir fjögurra ára tímabil, þar sem tveir rannsakendur unnu verkefnið í sameiningu.

Konur og karlar voru jafn líkleg til að vinna rannsóknarverkefni í samvinnu við aðila af hvoru kyninu fyrir sig ef rannsakendurnir nutu jafn hárrar stöðu innan háskólans.

Hins vegar voru konur mun ólíklegri til að gefa út rannsóknarverkefni í samstarfi við lægra settan aðstoðarmann sem var sama kyns.

Ásgeir Rúnar Helgason
Þetta mátti ekki greina hjá körlum, sem voru jafn líklegir til að gefa út rannsóknarverkefni, hvort sem þeir gerðu það í samstarfi við annan prófessor eða aðstoðarmann, óháð kyni.

„Þetta er ekki óþekkt fyrirbæri að fólk hafi þessa tilfinningu að konur séu konum verstar,“ segir Ásgeir R. Helgason. „Niðurstöðurnar gefa ekki tilefni til að hafna þeirri kenningu, en virðast frekar styðja hana,“ segir Ásgeir.

Hann segir ástæðu til að rannsaka málið betur, enda um að ræða flókið samspil líffræðilega og félagslegra breyta.

Niðurstöðurnar eru í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna sambærilegs efnis.

Hér má sjá samantekt vísindamannanna sem stóðu að rannsókninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×