Innlent

Ólga vegna launa á hjúkrunarheimilum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Staðan á hjúkrunarheimilum, sem rekin eru á daggjöldum, er misalvarleg.FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Staðan á hjúkrunarheimilum, sem rekin eru á daggjöldum, er misalvarleg.FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Ólga er nú meðal hjúkrunarfræðinga á hjúkrunarheimilum sem eru með lægri laun en hjúkrunarfræðingar í starfi hjá ríkinu. Við blasir að gripið verði til einhvers konar aðgerða, að sögn Ragnheiðar Gunnarsdóttur, varaformanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Hún segir launaleiðréttinguna sem hjúkrunarfræðingar í starfi hjá ríkinu fengu í fyrra í gegnum stofnanasamninga ekki hafa skilað sér til hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. „Eina leiðin til að leiðrétta það misræmi sem er á kjörum hjúkrunarfræðinga er í gegnum kjarasamninga sem nú eru lausir. En hjúkrunarfræðingar á hjúkrunarheimilum eru ekki sáttir við að fá bara 2,8 prósenta hækkun eins og aðrir þar sem hún kemur ofan á lægri grunn en hjá hinum.“

Að sögn Ragnheiðar eru hjúkrunarfræðingar á hjúkrunarheimilum farnir að segja upp og hverfa til starfa annars staðar þar sem þeir fá hærri laun. „Það er víða undirmönnun. Fólk hættir og annað kemur ekki í staðinn. Þetta kemur niður á gæðum hjúkrunarinnar. Færri verða til að leiðbeina minna menntuðu starfsfólki og tryggja örugga og faglega hjúkrun. Lífsgæði þeirra sem búa á hjúkrunarheimilunum munu versna.“

Gísli Páll Pálsson, forstjóri í Mörk, hjúkrunarheimili, og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir að í síðustu viku hafi verið leitað eftir meiri fjármunum frá ríkinu í tengslum við nýja kjarasamninga.

„Við vorum svo grunlaus að við héldum að hækkanirnar frá ríkinu í fyrra kæmu sjálfkrafa á okkar stofnanir. Það var óskynsamlegt hjá báðum ríkisstjórnunum að gera þetta svona. Svokallað jafnlaunaátak endaði í ójafnlaunaátaki.“

Að sögn Gísla er staðan misalvarleg á hjúkrunarheimilunum sem rekin eru á daggjöldum. „Við höfum bent á það í mörg ár að daggjöld þurfi að hækka um 10 prósent og heilbrigðisráðherra viðurkenndi nú í desember að daggjaldagrunnurinn væri veikur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×