Innlent

Stappi stálinu í framhaldskólanema

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Verkfall kennara í framhaldsskólum gæti hafist 17. mars.
Verkfall kennara í framhaldsskólum gæti hafist 17. mars. Fréttablaðið/Pjetur
Stjórn Foreldrafélags Fjölbrautaskólans við Ármúla hefur sent foreldrum og forráðamönnum nemenda hvatningu um að styðja vel við bakið á börnum sínum í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríki vegna hugsanlegs verkfalls kennara.

Í áskorun foreldrafélagsins er undirstrikað að samninganefndir kennara og ríkisins fundi stíft þessa daga svo ekki liggi fyrir hvort til verkfalls komi 17. mars.

Foreldrafélagið kemur síðan á framfæri skilaboðum frá umboðsmanni barna og samtökunum Heimili og skóla. „Brottfall nemenda úr framhaldsskólum hefur verið mikið áhyggjuefni hér á landi og er hætt við að langvarandi verkfall verði til þess að fleiri nemendur hætti í skóla og ljúki ekki framhaldsnámi,“ vara þessir aðilar við.

„Framhaldsskólanemendur eru hvattir til að missa ekki móðinn og stunda nám af fullum krafti þó hætta sé á verkfalli.“

Þá eru kennarar og annað starfsfólk framhaldskóla hvattir til að undirbúa nemendur eins vel og mögulegt er og gera allt til að koma í veg fyrir að nemendur flosni upp úr námi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×