Innlent

Opnun nýrrar Hverfisgötu fagnað

Bjarki Ármannsson skrifar
Lúðrablástur og skemmtikraftar settu svip á götuna.
Lúðrablástur og skemmtikraftar settu svip á götuna. Mynd/Reykjavíkurborg
Endurnýjun stórs hluta Hverfisgötunnar var fagnað á laugardaginn með skrúðgöngu og ræðuhöldum. Framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarna mánuði við að fegra götuna og bæta aðgengi.

Jón Gnarr borgarstjóri ávarpaði gesti við opnunina og þakkaði meðal annars verslunarmönnum við götuna fyrir biðlundina meðan á framkvæmdum stóð. Hann sagði endurnýjun Hverfisgötunnar ánægjulega og að mörgu leyti mætti líkja götunni við pönkara sem nú væri kominn í dragt. Fornbílar óku um götuna í tilefni dagsins og Bíó Paradís bauð upp á ókeypis Reykjavíkurkvikmyndahátíð.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg er athygli vakin á þeim aðgerðum sem stefna að því að bæta aðgengi fatlaðra við götuna en Arnar Helgi Lárusson, formaður Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra, sagði í viðtali við DV nýverið að framkvæmdirnar væru „út í hött“ og að Hverfisgatan væri „ekki hjólastólavæn að neinu leyti“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×