Sport

Gunnar Nelson æfir af kappi á Írlandi fyrir risabardaga

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Mynd frá bardaga Gunnars gegn Jorge Santiago á síðasta ári.
Mynd frá bardaga Gunnars gegn Jorge Santiago á síðasta ári. nordicphotos/getty
„Hann fór út til Írlands í byrjun janúar og var þá aðallega að fara þangað til að skipta um umhverfi og til að æfa með John Kavanagh,“ segir Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars Nelsons. Gunnar er nú í æfingaferð á Írlandi og æfir þar hjá þjálfaranum sínum, John Kavanagh. „John var að opna nýtt gym í Dublin og því kærkomið fyrir Gunna og breyta til og fara út,“ bætir Haraldur við.

Gunnar æfir að minnsta kosti tvisvar sinnum á dag, þá yfirleitt í hádeginu og svo aftur seinni partinn. Þar æfir hann undir leiðsögn þjálfara síns, en einnig er Conor McGregor, sem er einnig keppandi í UFC, að æfa með Gunnari. „John er líka aðalþjálfari McGregors. Mér skilst að þeir félagar hafi verið á sex tíma æfingu fyrir nokkrum dögum, þeir eru miklir pælarar báðir.“

Gunnar Nelson og Conor McGregor.mynd/einkasafn
Haraldur hittir son sinn í München á mánudag, þar sem Gunnar kemur fram á íþróttavörusýningu. Þeir koma svo báðir til Íslands á fimmtudaginn og þá halda æfingar áfram hér á landi. „Hingað til lands koma Írar sem æfa með Gunna og svo kemur John Kavanagh hingað um miðjan febrúar og tekur lokasprettinn með Gunnari,“ útskýrir Haraldur.

Bardagi Gunnars fer fram í London þann 8. mars næstkomandi þar sem hann keppir á móti rússneska Sambó-meistaranum Omari Akhmedov.

Nordic Photos / Getty ImagesFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.