Innlent

Lag að leggja í endurskoðun á búvörukerfinu

Þorgils Jónsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson útilokar ekki að leggja fram frumvörp til breytinga á búvörukerfinu og er bjartsýnn á að þar sé hægt að taka skref fram á við.
Guðlaugur Þór Þórðarson útilokar ekki að leggja fram frumvörp til breytinga á búvörukerfinu og er bjartsýnn á að þar sé hægt að taka skref fram á við. Fréttablaðið/Stefán
Nú er lag, í ljósi breyttra viðhorfa, að endurskoða búvörukerfið. Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem opnaði á þingi í gær á umræðu um málaflokkinn.

Guðlaugur innti landbúnaðarráðherra þar svara við sex spurningum, meðal annars um upprunamerkingar landbúnaðarvara, úthlutun tollkvóta til innflutnings á landbúnaðarvöru og ekki síst stöðu samkeppnismála þar sem hluti mjólkuriðnaðar sé meðal annars undanþeginn samkeppnislögum.

Í samtali við Fréttablaðið sagðist Guðlaugur vilja horfa til allra þátta samkeppnissjónarmiða.

Guðlaugur Þór Guðlaugsson
„Því hefur verið haldið fram, með réttu eða röngu, að verslunarkeðjur og framleiðendur séu að halda öðrum frá samkeppni, en það þarf að skoða þessa hluti vel, vegna þess að það er afar mikilvægt að stíga ekki á vaxtarbrodda á þessu sviði frekar en öðrum. Þar má til dæmis nefna Beint frá býli og fleira, en í framkvæmd er slíkt besta byggðastefnan.“

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra svaraði spurningum Guðlaugs meðal annars þannig til, að vinna við innleiðingu reglugerðar um upprunamerkingar stæði nú yfir. Hún taki gildi í desember næstkomandi. Hann ætli þó ekki að breyta úthlutun tollkvóta. Ekki hafi verið rætt um meiri sveigjanleika til frekari innflutnings á hvítu kjöti en það geti breyst í samningaviðræðum við ESB.

Varðandi samkeppnissjónarmið í mjólkuriðnaði sagði Sigurður að slíkt gæti komið til tals við boðaða heildarendurskoðun á búvörusamningum.

„En það er rétt að benda á að fyrirkomulagið hefur skilað mikilli hagræðingu sem skilar sér til neytenda og bænda.“

Í umræðunum var talað fyrir bættum upprunamerkingum og góðri samkeppnisstöðu íslenskra búvara, þar séu mörg sóknarfæri. Margir töluðu fyrir frjálsari innflutningi, meðal annars á hvítu kjöti, svínakjöti og kjúklingi.

„Við verðum að standa vörð um hefðbundinn landbúnað, en varðstaða um hvítt kjöt er varðstaða um iðnaðarfyrirtæki, en ekki íslenskar fjölskyldur,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar.

Guðlaugur segist bjartsýnn á framhald málsins: „Nú er lag og tækifæri sem við höfum ekki haft lengi. Ef umræðan verður áfram með sama hætti er enginn vafi á að við eigum að geta stigið skref til hagsbóta bæði fyrir neytendur og bændur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×