Innlent

Ríkið rannsaki og kæri málverkafalsanir

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason segja varnir gegn málverkafölsunum næsta litlar á Íslandi.
Katrín Jakobsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason segja varnir gegn málverkafölsunum næsta litlar á Íslandi. Fréttablaðið/Vilhelm
„Stóra málverkafölsunarmálið“ og niðurstaða þess í Hæstarétti árið 2004 leiddu í ljós ýmsa veikleika á íslenskum listmunamarkaði, þar sem helst til auðvelt virðist að koma fölsuðum myndverkum í umferð og varnir við slíku athæfi reyndust næsta litlar,“ segja flutningsmenn þingsályktunartillögu um ráðstafanir gegn málverkafölsun.

Þau Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segja markmið tillögu sinnar að „verja listamenn og listaverkaeigendur fyrir fjárhagstjóni vegna falsana og ekki síður til að vernda íslenska menningararfleifð fyrir þeim spellvirkjum sem falsanir fela í sér“.

Katrín og Vilhjálmur segja talið að á 10. áratug síðustu aldar hafi allt að 900 fölsuð málverk og teikningar gengið kaupum og sölum á Íslandi. Þau vilja að mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp með fulltrúum ráðuneytisins, Listasafns Íslands, Myndstefs, Bandalags íslenskra listamanna, Sambands íslenskra myndlistarmanna, embættis sérstaks saksóknara, og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

„Hlutverk hópsins verður að gera tillögur að ráðstöfunum gegn málverkafölsunum og skilgreiningu á ábyrgð hins opinbera í lögum gagnvart varðveislu þessa hluta menningararfsins. Þá fái hið opinbera frumkvæðisskyldu til að rannsaka og eftir atvikum kæra málverkafalsanir,“ segja Katrín og Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×