Innlent

Samningarnir mikill áfangi í sjálfum sér

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Kristján Þór heilbrigðisráðherra segir það vera á ábyrgð fyrri ríkisstjórnar að hafa ekki haldið samningsbandi við sérfræðilækna.
Kristján Þór heilbrigðisráðherra segir það vera á ábyrgð fyrri ríkisstjórnar að hafa ekki haldið samningsbandi við sérfræðilækna. fréttablaðið/valli
„Það eitt að ná samningum tel ég vera mikinn áfanga og gera öllum fært að leysa sjúklinga og lækna úr þeirri óreiðu sem samningsleysið skapaði,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Samningar náðust milli sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og Sjúkratrygginga Íslands í lok síðasta árs en samningurinn getur leitt til minni kostnaðarþátttöku sjúklinga. Kristján vill ekki tjá sig um innihald samninganna fyrr en réttur læknanna til að sækja um rennur út.

Hann segir þó að í einhverjum tilvikum muni gjaldskráin hækka en í öðrum tilvikum lækka. „Stærsti áfanginn er að koma á einhverri reiðu og skipan í þennan mikilvæga þátt í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Mér þykir það vera ábyrgðarhluti fyrri ríkisstjórnar að hafa ekki verið í samningsbandi allan þennan tíma.“

Samningsbandið slitnaði árið 2010 en þá var Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra.

„Það lá auðvitað fyrir að semja við sérfræðilækna á sínum tíma. Við töldum að þeir ættu að taka hluta af skerðingunni eins og aðrir. Samningar náðust bara einfaldlega ekki,“ sagði Guðbjartur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×