Innlent

Flugmannaskortur eftir nokkur ár

Freyr Bjarnason skrifar
Gert er ráð fyrir átján prósenta aukningu í áætlunarflugi hjá Icelandair á árinu.
Gert er ráð fyrir átján prósenta aukningu í áætlunarflugi hjá Icelandair á árinu. Fréttablaðið/Vilhelm
„Útlitið er bjart fyrir verðandi flugmenn,“ segir Hafsteinn Pálsson, formaður Félags íslenskra flugmanna.

Icelandair hefur ráðið þrjátíu flugmenn til starfa. Alls hefur flugfélagið ráðið 58 flugmenn á síðustu þremur árum, að því er fram kom í fréttabréfi Félags íslenskra flugmanna.

„Atvinnhorfur flugmanna til framtíðar líta ágætlega út til lengri tíma litið, miðað við allar spár og framleiðslu á flugmönnum. Í rauninni er þörf fyrir fleiri flugmenn að verða til og það stefnir í að það verið flugmannaskortur eftir nokkur ár,“ segir Hafsteinn, aðspurður.

Hann segir þessar góðu framtíðarhorfur byggjast á spám fyrirtækjanna Boeing og Airbus um aukingu á flugumferð í heiminum og fjölgun flugvéla. Iðnaðurinn í heild sinni hefur einnig spáð fjölgun flugferða. „Svo þarf alltaf flugmenn til að fjúga hverri vél. Sem dæmi þá þjálfuðu bæði Lufthansa og British Airwaves flugmenn frá grunni en tóku það af. Núna er það komið á aftur,“ segir hann.

Í fréttabréfinu kemur fram að flugmennirnir nýráðnu munu hefja störf í þremur hollum. Það fyrsta verður í byrjun janúar þar sem fyrsta þjálfunarnámskeið hefst. Þeir munu svo setjast undir stýri á vélum félagsins á vordögum þegar allri flugmenn sem eru í vetraruppsögn eru komnir til starfa.

Alls sóttu 223 um störfin þrjátíu hjá Icelandair. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, uppfylltu 175 hæfniskröfur og nítíu fóru í viðtal.

Næsta sumar verða 334 flugmenn við störf hjá Icelandair. „Það er fleiri en nokkru sinni áður. Þetta byggir á þeim vexti sem hefur verið í farþegafluginu á undanförnum árum. Gert er ráð fyrir um það bil átján prósenta aukningu í áætlunarfluginu til og frá landinu hjá Icelandair á þessu ári,“ segir Guðjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×