Innlent

Tveir árgangar af síld ófundnir

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Vegna frétta um síld inn á Hvammsfirði í Breiðafirði, rétt fyrir jól fór Hafrannsóknastofnun til rannsókna þangað og í nágrenni á rannsóknaskipinu Dröfn í síðustu viku. Niðurstöður mælinga sýndu að umtalsvert magn af smásíld úr 2012 árganginum var í firðinum, en hins vegar var ekkert af veiðistofninum eins og vænst hafði verið.

Í framhaldi af því voru hefðbundin veiðisvæði í sunnanverðum Breiðafirði skoðuð sem og Kolgrafafjörður. „Það er skemmst frá því að segja að bráðabirgða niðurstöður þessara mælinga gáfu sambærilegar niðurstöður og mælingar sem gerðar voru á þessum slóðum fyrir jól eða um 60 þús. tonn af veiðistofninum. Nánast öll þessi síld var í innri hluta Kolgrafafjarðar,“ segir í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar.

Þá segir einnig að endanlegir reikningar muni ekki liggja fyrir strax, en ljóst sé að ekkert hafi bæst við magn veiðistofns í Breiðafirðinum frá mælingum í haust. Enn vanti töluvert magn í bergmálsmælingar vetrarins miðað við mælingar síðasta árs, eða um 140.000 tonn.

Aldursgreining sýnir að árgangana 2007 og 2008 vantar einkum í fjörðinn, í samanburði við mælingar í fyrra. „Í vetur virðast þessir árgangar hinsvegar hafa vetursetu á nýjum og enn sem komið er óþekktum slóðum. Framhald síldarrannsókna og leita þessa vetrar verða ákveðnar á næstu dögum.“

Við mælingar í Kolgrafafirði var botn fjarðarins skoðaður og ­var enga dauða síld þar að finna, enda hafi súrefnismettun í firðinum verið góð það sem af er vetri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×