Innlent

Hinn alþjóðlegi Eyjafjallajökull

Birta Björnsdóttir skrifar
Á föstudaginn hefst frönsk kvikmyndahátíð í Háskólabíói. Opnunarmynd hátíðarinnar er að sjálfsögðu frönsk þó svo að Frakkar eigi í vandræðum með að bera titil myndarinnar fram, en myndin heitir Eyjafjallajökull.

Myndin segir frá fráskildum hjónum sem eru á leið í brúðkaup til dóttur sinnar í Grikkalandi í apríl árið 2010 þegar Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa. Öll ferðaplön þeirra fara því útum þúfur og þau neyðast til að nýta aðrar samgöngur til að komast á áfangastað.

Þrátt fyrir Íslandstenginguna er myndin þó ekki ein þeirra fjölmörgu mynda sem teknar hafa verið upp hér á landi undanfarin misseri.

„Myndin tengist Íslandi ekki að neinu leyti nema því að hún heitir þessu nafni, sem öllum utan Íslands finnst svo erfitt að bera fram,“ segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Græna ljóssins.

Maðurinn á bakvið myndina, leikstjórinn sem ákvað að gera mynd fyrir alþjóðlegan markað með nafninu Eyjafjallajökull heitir Alexandre Coffre.

„Ég held að þetta hafi bara verið grín hjá honum,“ segir Ísleifur.

Hátíðin hefst sem fyrr segir á föstudaginn kemur en auk Eyjafjallajökuls verða sýnda átta aðrar franskar myndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×