Innlent

Ummæli Vigdísar endurspegla ekki viðhorf þingmanna almennt

Heimir Már Pétursson skrifar
Forseti Alþingis hefur rætt við Vigdísi Hauksdóttur vegna ummæla hennar um starfsmenn þingsins. Hann segir þau ekki endurspegla viðhorf þingmanna almennt og hann sjálfur sé þeim ósammála.

Margir þingmenn og samflokksmenn Vigdísar Hauksdóttur þingmanns Framsóknarflokksins eru ósáttir við ummæli hennar í Monitor Morgunblaðsins í gær, þar sem hún fer yfir muninn á andrúmsloftinu á Alþingi þegar hún kom þar inn sem varaþingmaður á árum áður og nú. En Vigdís segir m.a.

„Það er mjög gaman að hafa fengið að upplifa það Alþingi sem var og hét þegar virðing þess var sem mest.  ....... starfsfólk þingsins ávarpaði ekki þingmenn og það fylgdi því mikil virðing að vera alþingismaður“.

„Eftir að fjölmiðlar byrjuðu að sparka meira í þingmenn þá finnst mér viðhorf starfsmannanna líka breytast. Það þykir mér óskaplega leiðinlegt og það er eins og þessi gömlu góðu hefðir þingsins hafi ekki skilað sér nógu vel inn í nútímann.“

„Starfsmenn þingsins eiga að sjá til þess að allar hefðir séu í heiðri hafðar en nú er þetta orðið alltof frjálslegt fyrir minn smekk.“

Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis hefur rætt þessi ummæli við Vigdísi.

„Ég er alveg viss um það að þau endurspegla ekki viðhorf þingmanna almennt og sannarlega ekki mín viðhorf gagnvart starfsfólkinu . Við höfum hér frábært starfsfólk sem vinnur mjög vel að þeim verkefnum sem því er trúað fyrir og samskipti þingmanna og starfsfólksins hafa mér vitanlega alltaf verið óaðfinnanleg,“ sgir forseti Alþingis.

Einar hefur hefur mikla þingreynslu og setið á þingi í 23 ár og þar áður oft sem varaþingmaður. Hann segir viðhorf starfsmanna ekki hafa breyst við hrunið t.d.

„Starfsfólkið hefur bara gengið til sinna verka eins og það er vant af trúmennsku og hvað mig áhrærir ber ég fullt traust til starfsfólks Alþingis,“ segir Einar.

Finnst þér að hún ætti að leiðrétta þetta sem hún sagði?

„Hún verður auðvitað bara að standa fyrir sínum ummælum. Þetta eru hennar skoðanir en ég er ósammála þeim,“ segir Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×