Innlent

Vinsælast að leggja skóna á hilluna

Birta Björnsdóttir skrifar
Árlegt Hugvísindaþing Hugvísindasviðs Háskóla Íslands fer fram á morgun og hinn. Þar verður í boði fjölbreytt dagskrá, meðal annars fyrirlestur Oddnýjar G. Sverrisdóttur sem ber yfirskriftina Hvernig leggja menn skóna á hilluna í þýsku?

Þar mun Oddný segja frá rannsókn sinni á orðtakanotkun í íþróttafréttum hér á landi annars vegar og í Þýskalandi hinsvegar. Hún segir það ekki tilviljun að íþróttafréttir hafi orðið fyrir valinu.

„Íþróttafréttamenn eru gjarnan að lýsa stemningu og nota til þess tilfinningar. Þá eru viðtöl við íþróttamenn gjarnan tekin í fyrir eða eftir leiki og þá gefst lítill tími til að undirbúa fyrirfram það sem viðkomandi vill segja," segir Oddný.

Íþróttafréttir lýsi stemningu og fréttamenn og íþróttafólk tali beint frá hjartanu og án undirbúnings oft. Þannig sé hægt að mæla hvaða orðtök fólki er tamt að nota.

Og sum orðtök eru sannarlega vinsælli en önnur.

„Orðtakið um skóna og hilluna er mikið notað. Þá er líka vinsælt um að taka einhvern í bakaríið sem og að ganga á afturfótunum, svo fátt eitt sé nefnt," segir Oddný.

Þó orðtakið að leggja skóna á hilluna sé ekki til í þýsku segir Oddný það áhugavert að tíðni orðtaka virðist afar svipuð í íslensku og þýsku.

Gummi Ben þekkir orðtakanotkun í íþróttafréttum betur en margir.

„Ætli þetta sé ekki í undirmeðvitundinni hjá okkur. Ég hef reyndar alltaf kennt Bjarna Fel um þau orðtök sem við notum mest. Maður hlustaði á hann í gamla daga og drakk í sig allt sem hann sagði. En svo viriðst sem við íþróttafréttamenn notum mikið sömu orðtökin."

Gummi tekur undir það að í þessu sem og öðrum fréttaflutningi sé gott að hafa góða máltilfinningu.

„Þú þarft helst að koma frá Akureyri, sem er eini staðurinn þar sem talað er almennilegt mál."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×