Innlent

Segir ríkisstjórnina óttast þjóðarvilja

Árni Páll er ósáttur með svör Sigmundar Davíðs.
Árni Páll er ósáttur með svör Sigmundar Davíðs.
„Það er greinilegt að forysta stjórnarflokkanna óttast þjóðarviljann,“ segir Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar í samtali við Vísi.

Rétt í þessu lauk sérstakri umræðu á þingi um stöðu aðildarviðræðna við ESB. Árni Páll var málshefjandi og var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra til andsvara.

„Hann svaraði í raun engu,“ segir Árni Páll um svör Sigmundar Davíðs.  „Í vor gáfu stjórnarflokkarnir það skýrt fram að þeir ætluðu að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Fullt af fólki kaus þessa flokka, sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn og treysti þeim til þess að halda áfram með samningaferlið. En þeir eru ekki að standa við þessi loforð,“ segir Árni Páll ennfremur.

Hann telur kjörið tækifæri að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í vor, samfara sveitarstjórnarkosningum. „Þá verða tilbúnar tvær mjög vandaðar skýrslur um hugsanlega aðild Íslands að ESB. Þá verður frábær tími fyrir íslensku þjóðina að taka upplýsta ákvörðun. En það er greinilegt að þeir óttast vilja almennings,“ segir Árni Páll Árnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×