Það var heldur betur stuð í nafnlausu listastúdíói Grandabræðra á sunnudaginn en þar fór fram heljarinnar eftirpartí eftir Secret Solstice-hátíðina.
Hátíðargestir voru margir hverjir mættir í veisluna stuttu eftir að Kerri Chandler kláraði hátíðina en þá vantaði tónlist í partíið. Því var snögglega kippt í liðinn þegar DJ Margeir, sem heldur tónleika í Bláa lóninu í kvöld, mætti á Land Rover Defender með Magga Legó í skottinu.
Stuttu eftir það mætti DJ Yamaho og þeytti skífum ásamt Margeiri. Athygli vakti þegar gamlir rapparar mættu fyrir utan partíið og Unnsteinn Manúel stýrði svokölluðu „rapp-battli“ þeirra KáJoð og Egils Tiny, veislugestum til mikillar skemmtunar.
Það var síðan Reykjavíkurdóttirin Tinna Sverrisdóttir sem steig á milli gömlu rapparanna og að sögn viðstaddra stóð uppi sem sigurvegari.
