Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands, segir að reynslan sýni að þegar þeir sem vinna við samgöngur hafi farið í verkföll hafi verið sett lög.

„Það lúta ýmis rök að því að flugsamgöngur til og frá landinu varði almannaheill og að lagasetning geti verið heimil,“ segir Inga Björg Hjaltadóttir lögmaður, en hún er jafnframt fulltrúi ríkisins í Félagsdómi.
Inga Björg segir að Hæstiréttur hafi metið það svo í dómum sínum með hliðsjón af Mannréttindasáttmála Evrópu og ýmsum alþjóðasamningum að inngrip löggjafans í vinnudeilur geti verið réttlætanlegt.

Isavia og Samtök atvinnulífsins eru fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar að taka saman greinargerð um þann kostnað sem það gæti haft í för með sér fyrir þjóðarbúið ef flugvallarstarfsmenn fara í ótímabundið verkfall.
Í greinargerðinni á jafnframt að leggja mat á hvaða áhrif verkfall hefði fyrir ferðaþjónustuna til lengri tíma litið. Þegar greinargerðin verður tilbúin á að kynna hana fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra.
Ríkissáttasemjari hefur boðað samninganefnd Félags flugmálastarfsmanna ríkisins og Samtaka atvinnulífsins til sáttafundar á sunnudag.