Innlent

Flytur erindi um tjáningarfrelsi og fámenn samfélög

Stefán Árni Pálsson skrifar
Á morgun, þriðjudaginn 11. mars, mun Hrafnkell Lárusson flytja erindi sem kallast „Tjáningarfrelsi og nánd: Um fjölmiðlun og fámenn samfélög.“

Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina „Nýjustu rannsóknir í sagnfræði.“

Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12.05.

Í lýsingu á erindinu segir:

Hvaða áhrif hefur staðsetning fjölmiðla á nálganir þeirra og tengsl við þau samfélög sem þeir velja að fjalla um? Skiptir máli fyrir íbúa dreifbýlla svæða að hafa svæðisbundna fjölmiðla eða nægir þeim að stærri og fjarlægari fjölmiðlar „dekki“ þeirra svæði?

Fjölmiðlar eru upplýsingabrunnar, en þeir eru líka vettvangur skoðanaskipta og hafa áhrif á skoðanamyndun og sýn fólks á samfélög, bæði sitt eigið og önnur. En hafa fjölmiðlar áhrif á sjálfsmynd samfélaga? Skiptir máli að hafa „eigin rödd“?

Blaðaútgáfa á Íslandi hefur verið samfelld frá 19. öld, en ljósvaka- og netmiðlar spruttu síðar upp úr tækniþróun 20. aldar.

Á árabilinu 1985-2010 tók fjölmiðlaumhverfi á Íslandi gríðarlegum breytingum, líkt og í nágrannalöndunum.

Rætt verður um breytt umhverfi fjölmiðlunar og mögulega þróun hefðbundinna fjölmiðla á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×