Innlent

Ekkert samkomulag í sjónmáli

Hjörtur Hjartarson skrifar
VÍSIR/PJETUR
Stjórnarandstaðan fordæmdi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar á Alþingi í og sakaði hana um lítilsvirðingu gagnvart störfum þingsins. Össur Skarphéðinsson segir forsætisráðherra frekar vilja eyða tíma sínum í matsal þingsins að borða kökur heldur en að hlusta á ræður stjórnarandstöðunnar.

VÍSIR/STEFÁN
Forseti Alþingis hafði leitast eftir því þann 27. febrúar að ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan kæmust að samkomulagi um málsmeðferð tillögu utanríkisráðherra að draga umsókn Íslands að ESB til baka. Ekkert samkomulag náðist og voru engir fundir fyrirhugaðir þar til að forseti Alþingis boðaði til fundar úr ræðustól við upphaf þingfundar.

Að svo mæltu hófu þingmenn stjórnarandstöðunnar að setja út á þessi vinnubrögð. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar lýsti yfir vonbrigðum yfir því að nefndarvikan hafi ekki verið nýtt til að vinna að samkomulagi.

Í sama streng tók Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata. Hún sagði vinnubrögðin hreinlega furðuleg og gerðu þau lítið úr störfum þingsins.

VÍSIR/GVA
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra gerði athugasemdir við að hvorki forsætisráðherra né utanríkisráðherra væru í þingsal á meðan rætt var um störf þingsins. Fullyrti Össur að forsætisráðherra vildi frekar eyða tíma sínum í matsal Alþingis að borða kökur heldur en að hlusta á ræður þingmanna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra sagði að fundarboð forseta Alþingis hefði ekki átt að koma stjórnarandstöðunni í opna skjöldu eins og hún virtist gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×