Innlent

Ekki fjármagn til að hefja krabbameinsskimun

Elimar Hauksson skrifar
Í skýrslu ráðgjafahópsins er gert ráð fyrir að bjóða fólki ristilspeglun ef blóð greinist í hægðum viðkomandi.
Í skýrslu ráðgjafahópsins er gert ráð fyrir að bjóða fólki ristilspeglun ef blóð greinist í hægðum viðkomandi.
Ekki er til fjármagn til að hefja skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi vegna fjárskorts en til stóð að hefja skimun í byrjun árs 2009.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Valgerðar Gunnarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Í svarinu kemur fram að heilbrigðisráðherra hafi í mars árið 2007 verið falið að hefja undirbúning á skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi en ráðgjafahópur ráðherra skilaði lokaskýrslu í febrúar 2009. Í þeirri skýrslu kemur fram að skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini sé talin kostnaðarhagkvæm og að hún bjargi mannslífum. Lagt var til að hefja skimun hjá aldurshópnum 60-69 ára og taldi ráðgjafahópurinn að skimanir fyrir þann hóp myndu kosta 58 milljónir á ári en það er tæpar 80 milljónir á verðlagi janúarmánaðar 2014.

Áætlað var að árangur skimunarinnar myndi lækka dánartíðni um 18 prósent eða forða 17 manns frá dauða ef aldurshópnum yrði fylgt eftir í 10 ár. Enn hefur ekki verið veitt fjármagn úr ríkissjóði til að unnt sé að hefja kerfisbundna skimun og er málið til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×