Innlent

Vill afsökunarbeiðni frá Fjármálaeftirlitinu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Bæði umboðsmaður Alþingis og Héraðdómur Reykjavíkur segja ummæli FME á heimasíðunni villandi.
Bæði umboðsmaður Alþingis og Héraðdómur Reykjavíkur segja ummæli FME á heimasíðunni villandi. Vísir/HAG
Ingólfur Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, sendi í gær Fjármálaeftirlitinu bréf þar sem hann segir vegið að æru sinni í frétt FME frá því í apríl 2011 og krefst þess að fréttin verði fjarlægð af heimasíðu FME ásamt því sem birt verði afsökunarbeiðni vegna hinnar meiðandi umfjöllunar. Hafi þetta ekki verið gert fyrir klukkan þrjú í dag segist Ingólfur þá tilneyddur til að leita réttar síns fyrir dómi.

Fjármálaeftirlitið fjarlægði í gær fréttina af heimasíðu sinni í kjölfar bréfs Ingólfs en hefur þrátt fyrir það ekki birt umbeðna afsökunarbeiðni. Ingólfur segist ekki hafa tekið ákvörðun um framhaldið.

„Ég þarf að ræða þetta við lögmanninn minn og hugsa þetta. Satt að segja er ég orðinn þreyttur á þessum málaferlum. Það sem eftir situr hjá mér er að það hefur enginn axlað ábyrgð á þessu og hvað þá beðið mig afsökunar,“ segir Ingólfur í samtali við Fréttablaðið.

Í frétt FME, sem var athugasemd við frétt Fréttablaðsins 12. apríl 2011, sagði meðal annars að embætti sérstaks saksóknara hefði sagt í bréfi til stofnunarinnar að það stæði rannsóknarhagsmunum í vegi yrði Ingólfi veittur aðgangur að gögnum þeirra.

Ingólfur segir að eftir að hann hafi unnið tvö dómsmál gegn FME og tvívegis fengið stuðning umboðsmanns Alþingis við kvörtunum sínum, þar á meðal vegna umfjöllunar á heimasíðunni, þá finnist honum það sanngirnismál að þessi meiðandi ummæli verði fjarlægð og afsökunarbeiðni birt.

Bæði umboðsmaður Alþingis og Héraðsdómur Reykjavíkur töldu að framsetning fréttar FME hefði verið til þess fallin að tengja Ingólf við rannsókn sakamála hjá sérstökum saksóknara en fram hefði komið að hann hefði þar hvorki stöðu grunaðs né sakbornings.


Tengdar fréttir

FME áfrýjaði ekki dómi Héraðsdóms Reykjavíkur

Fjármálaeftirlitið (FME) kaus að áfrýja ekki dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um að stofnuninni bæri að greiða Ingólfi Guðmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga, 8,9 milljónir króna vegna ákvörðunar stofnunarinnar.

"Geðþóttamat" hjá FME - Ingólfur sætir ekki rannsókn

Ingólfur Guðmundsson gerir alvarlegar athugasemdir við tilkynningu Fjármálaeftirlitsins þar sem birtur er rökstuðningur FME fyrir því að Ingólfur hafi þurft að víkja sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Ingólfur er meðal annars ósáttur við að FME haldi því fram að hann hafi gefið stofnuninni rangar upplýsingar þegar hann sendi til hennar gögn sem áttu að liggja til grundvallar mati á hæfi hans. "Ef FME taldi svar mitt vísvitandi rangt hefði stofnunin átt að vísa málinu til rannsóknar hjá lögreglu. Það var ekki gert sem segir meira en mörg orð," segir Ingólfur. Að sögn Ingólfs var þarna um að ræða athugasemdir FME vegna svars hans á eyðublaði um hæfisupplýsingar þess efnis um hvort hann hafi sætt opinberri rannsókn. Ingólfur ítrekar að hann hafi aldrei sætt opinberri rannsókn og að þannig hafi hann svarað spurningunni, sannleikanum samkvæmt. Vísir sagði í morgun frá því að FME hefði loks birt gagnsæistilkynningu vegna mats á hæfi Ingólfs sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Ingólfur þurfti síðasta haust að víkja úr stöðunni vegna mats stjórnar FME. Eins og Vísir greindi frá hefur Ingólfur stefnt FME vegna ákvörðunarinnar og krefst hann þess að henni verði hnekkt. FME krafðist frávísunar, á þeim grundvelli að Ingólfur væri hættur störfum, en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 16. maí var þeirri kröfu FME hafnað. Ingólfur lítur svo á að fagleg sjónarmið hafi ekki verið uppi þegar matið var gert. "Þessi ákvörðun byggir á geðþóttamati embættismanna á störfum mínum í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins. Þetta mat er rangt og hefur mál verið höfðað til ógildingar ákvörðunarinnar fyrir dómstólum," segir í athugasemdum sem Ingólfur sendi fréttastofu vegna málsins. "Framganga FME í þessu efni er nokkuð sérstök í ljósi umfjöllunar stjórnar FME um svar Gunnars Andresen, fyrir hönd Landsbankans, um erlenda starfsemi bankans þann 26. júní 2001, þar sem m.a. aflandsfélaga á Guernsay er hvergi getið þó hann væri stjórnarformaður a.m.k. eins slíks fyrirtækis," segir í athugasemdum Ingólfs, en Gunnar Andersen er forstjóri FME. Þá hafnar Ingólfur því algjörlega að Landsbanki Íslands sem var rekstraraðili Íslenska lífeyrissjóðsins hafi skilað inn röngum skýrslum til FME varðandi fjárfestingar í einstökum verðbréfum, og segir hann að stjórn lífeyrissjóðsins, þar sem hann var sjálfur stjórnarformaður, hafi sinnt hlutverki sínu vel. FME gerði einnig athugasemdir við breytingu stjórnar lífeyrissjóðsins á fjárfestingarstefnu einnar ávöxtunarleiðar sjóðsins og segir í mati FME að fé hafi verið flutt yfir í áhættumeiri fjárfestingakosti. Ingólfur segir einfaldlega rangt að sú leið sem farin var hafi verið áhættumeiri. Ingólfur segir ennfremur að sjóðfélagar hafi verið upplýstir um breytinguna, þvert á það sem FME heldur fram, og að rangt sé að breytingin hafi verið háð samþykki fjármálaráðherra eða sjóðfélagar. "Fullyrðing þessi er sett fram í vondri trú, því að fyrir liggur bréf Fjármálaráðuneytisins þann 31. janúar 2011 til FME þar sem þetta kemur skýrt fram," segir Ingólfur.

Ingólfur gaf FME rangar upplýsingar um sjálfan sig

Fjármálaeftirlitið lítur svo á að Ingólfur Guðmundsson hafi ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni sem stjórnarformaður Íslenska lífeyrissjóðsins þegar hann lét hjá að líða að fylgjast með ráðstöfun eigna sjóðsins á árinu 2008 og bregðast við með viðeigandi hætti þegar fjárfestingar sjóðsins voru langt umfram lagaheimildir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í gagnsæistilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu þar sem birtur er rökstuðningur fyrir því að Ingólfur var ekki metinn hæfur til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Fjármálaeftirlitið ákvað á sínum tíma að birta ekki gagnsæistilkynningu um ákvörðunina en vegna ítrekaðrar fjölmiðlaumfjöllunar um mál hans, og þeirrar staðreyndar að hann hefur höfðað dómsmál til ógildingar ákvörðuninni, birtir Fjármálaeftirlitið á miðvikudag. Lögmaður Ingólfs í málaferlunum er Jónas Fr. Jónasson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt gagnsæistilkynningunni gaf Ingólfur Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar í gögnum sem hann sendi eftirlitinu og áttu að liggja til grundvallar mati á hæfi hans til að gegna stöðu framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins, og er það ámælisvert að mati Fjármálaeftirlitsins. Í tilkynningunni kemur einnig fram að stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins, þar með talinn Ingólfur sem þá var stjórnarformaður, hafi látið undir höfuð leggjast að afla samþykkis sjóðsfélaga við breytta fjárfestingarstefnu séreignarsparnaðarleiðarinnar Líf IV. Breytt fjárfestingarstefna var samþykkt á stjórnarfundi í apríl 2007 en breytingarnar ekki tilkynntar fjármálaráðherra eins og gert er ráð fyrir, en um verulegar breytingar var að ræða þar sem fjármunir voru færðir af innlánsreikningum yfir í umtalsvert áhættumeiri fjárfestingaleið. Ingólfur var ráðinn framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga í febrúar 2010 með fyrirvara um að hann uppfyllti skilyrði um hæfi. Hæfismat Fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós að Ingólfur hefði gerst sekur um ámælisverð brot og því ekki forsvaranlegt að hann héldi stöðunni. Hann lét því af störfum í september á síðasta ári. Við mat á hæfi Ingólfs skoðaði Fjármálaeftirlitið feril Ingólfs, en hann sat í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá árinu 1995 til 2009, eða í 14 ár. Þá var hann stjórnarformaður síðustu 9 árin. Frá 1998 starfaði hann samhliða hjá Landsbanka Íslands sem framkvæmdastjóri einkabankasviðs, á árinu 2004 og fram að falli bankans 2008. Landsbanki Íslands er rekstraraðili Íslenska lífeyrissjóðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×