Viðskipti innlent

"Geðþóttamat" hjá FME - Ingólfur sætir ekki rannsókn

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ingólfur stefnt FME vegna ákvörðunarinnar og krefst hann þess að henni verði hnekkt. FME krafðist frávísunar, á þeim grundvelli að Ingólfur væri hættur störfum, en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 16. maí var þeirri kröfu FME hafnað.
Ingólfur stefnt FME vegna ákvörðunarinnar og krefst hann þess að henni verði hnekkt. FME krafðist frávísunar, á þeim grundvelli að Ingólfur væri hættur störfum, en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 16. maí var þeirri kröfu FME hafnað.
Ingólfur Guðmundsson gerir alvarlegar athugasemdir við tilkynningu Fjármálaeftirlitsins þar sem birtur er rökstuðningur FME fyrir því að Ingólfur hafi þurft að víkja sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Ingólfur er meðal annars ósáttur við að FME haldi því fram að hann hafi gefið stofnuninni rangar upplýsingar þegar hann sendi til hennar gögn sem áttu að liggja til grundvallar mati á hæfi hans.

„Ef FME taldi svar mitt vísvitandi rangt hefði stofnunin átt að vísa málinu til rannsóknar hjá lögreglu. Það var ekki gert sem segir meira en mörg orð," segir Ingólfur.

Að sögn Ingólfs var þarna um að ræða athugasemdir FME vegna svars hans á eyðublaði um hæfisupplýsingar þess efnis um hvort hann hafi sætt opinberri rannsókn. Ingólfur ítrekar að hann hafi aldrei sætt opinberri rannsókn og að þannig hafi hann svarað spurningunni, sannleikanum samkvæmt.

Vísir sagði í morgun frá því að FME hefði loks birt gagnsæistilkynningu vegna mats á hæfi Ingólfs sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Ingólfur þurfti síðasta haust að víkja úr stöðunni vegna mats stjórnar FME.

Eins og Vísir greindi frá hefur Ingólfur stefnt FME vegna ákvörðunarinnar og krefst hann þess að henni verði hnekkt. FME krafðist frávísunar, á þeim grundvelli að Ingólfur væri hættur störfum, en með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 16. maí var þeirri kröfu FME hafnað.

Ingólfur lítur svo á að fagleg sjónarmið hafi ekki verið uppi þegar matið var gert. „Þessi ákvörðun byggir á geðþóttamati embættismanna á störfum mínum í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins. Þetta mat er rangt og hefur mál verið höfðað til ógildingar ákvörðunarinnar fyrir dómstólum," segir í athugasemdum sem Ingólfur sendi fréttastofu vegna málsins.

„Framganga FME í þessu efni er nokkuð sérstök í ljósi umfjöllunar stjórnar FME um svar Gunnars Andresen, fyrir hönd Landsbankans, um erlenda starfsemi bankans þann 26. júní 2001, þar sem m.a. aflandsfélaga á Guernsay er hvergi getið þó hann væri stjórnarformaður a.m.k. eins slíks fyrirtækis," segir í athugasemdum Ingólfs, en Gunnar Andersen er forstjóri FME.

Þá hafnar Ingólfur því algjörlega að Landsbanki Íslands sem var rekstraraðili Íslenska lífeyrissjóðsins hafi skilað inn röngum skýrslum til FME varðandi fjárfestingar í einstökum verðbréfum, og segir hann að stjórn lífeyrissjóðsins, þar sem hann var sjálfur stjórnarformaður, hafi sinnt hlutverki sínu vel.

FME gerði einnig athugasemdir við breytingu stjórnar lífeyrissjóðsins á fjárfestingarstefnu einnar ávöxtunarleiðar sjóðsins og segir í mati FME að fé hafi verið flutt yfir í áhættumeiri fjárfestingakosti. Ingólfur segir einfaldlega rangt að sú leið sem farin var hafi verið áhættumeiri. Ingólfur segir ennfremur að sjóðfélagar hafi verið upplýstir um breytinguna, þvert á það sem FME heldur fram, og að rangt sé að breytingin hafi verið háð samþykki fjármálaráðherra eða sjóðfélagar.

„Fullyrðing þessi er sett fram í vondri trú, því að fyrir liggur bréf Fjármálaráðuneytisins þann 31. janúar 2011 til FME þar sem þetta kemur skýrt fram," segir Ingólfur.

Athugasemdir Ingólfs vegna tilkynningar Fjármálaeftirlitsins eru sem hér segir:

1. Vísað er til þess að Landsbanki Íslands sem var rekstraaðili Íslenska lífeyrissjóðsins hafi skilað inn röngum skýrslum til FME varðandi fjárfestingar í einstökum verðbréfum og haldið fram að sjóðurinn hafi fjárfest umfram heimildir í verðbréfum Landsbankans og tengdra aðila. Vegna þessa er rétt að taka fram:


Íslenski lífeyrissjóðurinn var eins og fleiri lífeyrissjóðir með rekstrarsamning við Landsbankann. Rekstraraðili sá um skýrslugjöf og samskipti við FME. Þrefalt eftirlitskerfi var fyrir hendi með fjárfestingum sjóðsins, þ.e. auk eftirlits að hálfu innri endurskoðanda Landsbankans og ytri endurskoðun var sérstakt eftirlit á eignastýringarsviði sem vaktaði fjárfestingar þeirra sjóða sem höfðu rekstrarsamning við bankann. Þetta fyrirkomulag hafði verið viðhaft í 9 ár án athugasemda innri og ytri endurskoðanda eða FME. Við nánari skoðun virðist sem mannleg mistök hjá rekstraraðila og breytingar á gengi krónunnar á árinu 2008 hafa leitt til þess að fjárfestingar fóru tímabundið umfram heimildir í fáum tilvikum, einkum er varðaði skuldabréf í Kaupþingi. Það er hins vegar rangt að slíkt hafi einkum verið í „verðbréfum Landsbankans og tengdra aðila". Það að fjárfestingar fari tímabundið umfram heimildir eru algengt hjá bæði lífeyrissjóðum og verðbréfasjóðum og hefur ekki leitt til jafn ofsafenginna viðbragða og í mínu tilviki. Stjórn lífeyrissjóðsins sinnti hlutverki sínu vel í hvívetna eins og rakið er í stefnu minni. Þannig var gripið til margþættra aðgerða í aðdraganda hrunsins, s.s.:

  • Gjaldmiðlasamningum við Landsbankann var sagt upp af stjórn í byrjun maí 2008 Aðgerð þessi reyndist afar farsæl fyrir sjóðinn en eins og kunnugt er urðu nær allir lífeyrissjóðir landsins fyrir verulegu skakkafalli vegna þessara samninga.
  • Um mitt ár 2007 var rúmlega helmingur af innlendum hlutabréfum sjóðsins seldur og síðna var sölu haldið áfram og var svo komið að í september 2008 var eign sjóðsins í innlendum hlutabréf aðeins um 0,3% af heildareignum .
  • Í stað árlegs uppgjörs var á árinu 2008 byrjað að vinna og leggja fram á stjórnarfundum 3 mánaða endurskoðuð uppgjör.
2. Gerðar eru athugasemdir við breytingu á fjárfestingastefnu einnar ávöxtunarleiðar sjóðsins árið 2007 (LÍF IV) úr innánum í skuldabréf og vil ég í því sambandi benda á eftirfarandi:

Nauðsynlegt var að breyta þessari ávöxtunarleið þar sem lög höfðu tekið gildi sem bönnuðu lífeyrissjóðum að binda meira en 25% af innlánum hjá sama banka eða sparisjóði. Ekki var um að ræða breytingu á samþykktum eða reglum sjóðsins heldur eingöngu fjárfestingastefnu. Valin var varfærin skuldabréfaleið og miðað við þær forsendur sem fyrir lágu er rangt að halda því fram að þessi fjárfestingarkostur hafi verið áhættumeiri. Sambærileg breyting var gerð af hálfu Frjálsa lífeyrissjóðsins og hafa ekki verið gerðar athugasemdir við það. Sjóðfélagar voru upplýstir um breytinguna m.a. með bréfi, en það er rangt að fjármálaráðherra eða sjóðfélagar lífeyrissjóða þurfi að samþykkja breytingar á fjárfestingastefnu lífeyrissjóða. Fullyrðing þessi er sett fram í vondri trú, því að fyrir liggur bréf Fjármálaráðuneytisins þann 31. janúar 2011 til FME þar sem þetta kemur skýrt fram.

3. Stofnunin gerir athugasemd við svar mitt á eyðublaði um hæfisupplýsingar, þess efnis hvort ég tengist félagi sem hafi sætt opinberri rannsókn, vegna þess vil ég taka fram að:


Ég hef ekki sætt opinberri rannsókn og var því svarað þannig til. Ef FME taldi svar mitt vísvitandi rangt hefði stofnunin átt að vísa málinu til rannsóknar hjá lögreglu. Það var ekki gert sem segir meira en mörg orð. Framganga FME í þessu efni er nokkuð sérstök í ljósi umfjöllunar stjórnar FME um svar Gunnars Andresen, fyrir hönd Landsbankans, um erlenda starfsemi bankans þann 26. júní 2001, þar sem m.a. aflandsfélaga á Guernsay er hvergi getið þó hann væri stjórnarformaður a.m.k. eins slíks fyrirtækis.

Varðandi ákvörðun FME er rétt að fram komi að ég hef gert alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar. Stofnunin hefur ítrekað neitað mér um þau grundvallarmannréttindi að fá aðgang að gögnum til að verja hendur mínar. Umboðsmaður Alþingis tók þetta mál upp af eigin frumkvæði. Niðurstaða hans var skýr um að andmælaréttur minn hefði ekki verið virtur, þó svo að FME kjósi að mistúlka hana og gera lítið úr i niðurstöðu umboðsmanns. Tekin var ákvörðun um að skerða atvinnufrelsi mitt án þess að ég hafi brotið nokkuð af mér og vilji og traust stjórnar Lífeyrissjóðs verkfræðinga, sem réði mig til starfa, að engu hafður vegna geðþóttamats embættismanna.

Ég höfðaði mál gegn embættinu þann 3. desember sl. þar sem þess er krafist að ákvörðun stjórnar FME verði hnekkt. Aðalkrafa FME var hinsvegar sú að málinu væri vísað frá þar sem ég væri hættur störfum. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 16. maí sl. var þessari kröfu FME hafnað.


Tengdar fréttir

Ingólfur gaf FME rangar upplýsingar um sjálfan sig

Fjármálaeftirlitið lítur svo á að Ingólfur Guðmundsson hafi ekki sinnt eftirlitsskyldu sinni sem stjórnarformaður Íslenska lífeyrissjóðsins þegar hann lét hjá að líða að fylgjast með ráðstöfun eigna sjóðsins á árinu 2008 og bregðast við með viðeigandi hætti þegar fjárfestingar sjóðsins voru langt umfram lagaheimildir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í gagnsæistilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu þar sem birtur er rökstuðningur fyrir því að Ingólfur var ekki metinn hæfur til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Fjármálaeftirlitið ákvað á sínum tíma að birta ekki gagnsæistilkynningu um ákvörðunina en vegna ítrekaðrar fjölmiðlaumfjöllunar um mál hans, og þeirrar staðreyndar að hann hefur höfðað dómsmál til ógildingar ákvörðuninni, birtir Fjármálaeftirlitið á miðvikudag. Lögmaður Ingólfs í málaferlunum er Jónas Fr. Jónasson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt gagnsæistilkynningunni gaf Ingólfur Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar í gögnum sem hann sendi eftirlitinu og áttu að liggja til grundvallar mati á hæfi hans til að gegna stöðu framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins, og er það ámælisvert að mati Fjármálaeftirlitsins. Í tilkynningunni kemur einnig fram að stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins, þar með talinn Ingólfur sem þá var stjórnarformaður, hafi látið undir höfuð leggjast að afla samþykkis sjóðsfélaga við breytta fjárfestingarstefnu séreignarsparnaðarleiðarinnar Líf IV. Breytt fjárfestingarstefna var samþykkt á stjórnarfundi í apríl 2007 en breytingarnar ekki tilkynntar fjármálaráðherra eins og gert er ráð fyrir, en um verulegar breytingar var að ræða þar sem fjármunir voru færðir af innlánsreikningum yfir í umtalsvert áhættumeiri fjárfestingaleið. Ingólfur var ráðinn framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga í febrúar 2010 með fyrirvara um að hann uppfyllti skilyrði um hæfi. Hæfismat Fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós að Ingólfur hefði gerst sekur um ámælisverð brot og því ekki forsvaranlegt að hann héldi stöðunni. Hann lét því af störfum í september á síðasta ári. Við mat á hæfi Ingólfs skoðaði Fjármálaeftirlitið feril Ingólfs, en hann sat í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá árinu 1995 til 2009, eða í 14 ár. Þá var hann stjórnarformaður síðustu 9 árin. Frá 1998 starfaði hann samhliða hjá Landsbanka Íslands sem framkvæmdastjóri einkabankasviðs, á árinu 2004 og fram að falli bankans 2008. Landsbanki Íslands er rekstraraðili Íslenska lífeyrissjóðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×