Innlent

Meirihluti fallinn í fjórum af tíu stærstu sveitarfélögum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Í Reykjavík heldur meirihluti Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar.
Í Reykjavík heldur meirihluti Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Vísir/Daníel
Í tíu stærstu sveitarfélögunum heldur meirihlutinn í sex, en fellur í fjórum.

Þegar fyrstu tölur eru komnar úr tíu stærstu sveitarfélögum landsins lítur út fyrir að meirihlutinn haldi í sex, en falli í fjórum.

Í Reykjavík heldur meirihluti Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. Í Kópavogi styrkist meirihlutinn með því að sjálfstæðismenn bæta við sig manni. Í Garðabæ tapar meirihluti sjálfstæðismanna lítilsháttar fylgi, en hefur áfram drjúgan meirihluta í bæjarstjórn sameinaðs sveitarfélags Garðabæjar og Álftaness.

Í Mosfellsbæ bæta sjálfstæðismenn, sem hafa verið í meirihluta, við sig og fá hreinan meirihluta. Meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Árborg heldur sömuleiðis. Í Fjarðabyggð heldur meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.

Í Hafnarfirði fellur meirihluti Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, en sjálfstæðismenn vinna á. Á Akranesi fellur meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks og óháðra og Vinstri grænna en sjálfstæðismenn fá hreinan meirihluta samkvæmt fyrstu tölum.

Meirihluti L-listans á Akureyri er kolfallinn. Þá missa sjálfstæðismenn meirihluta sinn í Reykjanesbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×