Innlent

Handtekinn fyrir að hrinda manni í jörðina

Laugardagskvöld eru oft viðburðarík hjá lögreglu í Reykjavík.
Laugardagskvöld eru oft viðburðarík hjá lögreglu í Reykjavík. Vísir/Anton
Mikill erill var hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna ölvunar og hávaða.

Um klukkan fimm í nótt sáu lögreglumenn á eftirlitsferð í miðborginni er maður hrinti öðrum manni með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig og skall með hnakkann í gangstéttina. Þegar lögreglumenn ætluðu að ræða við árasarmanninn hljóp hann af stað en var stöðvaður skömmu síðar og handtekinn. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins en ekki fengust upplýsingar um alvarleika meiðsla þess sem féll í götuna.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í nótt, annar í miðborg Reykjavíkur og hinn í Hafnarfirði. Annar var grunaður um ölvun við akstur en hinn um að aka undir áhrifum fíkniefna auk þess sem hann liggur undir grun um vörslu þeirra. Þá var tilkynnt um innbrot í bifreið við Þingholtsstræti og var stolið þaðan kvenveski með ýmsum munum.

Rólegt var í nótt hjá lögreglu á Akureyri, á Suðurnesjum og á Egilsstöðum og enginn handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×