Innlent

„Ég vil frekar deyja hér en fara aftur til Afganistans“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Tvítugur flóttamaður er nú á fimmta degi hungurverkfalls.  Hann hefur beðið í tvö ár eftir úrskurði um dvalarleyfi hér á landi.  

Ghasem Mohammadi hefur verið flóttamaður í fjögur ár, en hann flúði frá Afganistan þegar hann var sextán ára gamall. Hann kom til Íslands árið 2012 þar sem hann sótti um pólitískt hæli. Umsókninni var hafnað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ghasem hafði áður sótt um hæli í Svíþjóð.

Samkvæmt reglugerðinni er hælisleitanda vísað aftur til þess ríkis þar sem hann sótti fyrst um hæli. Ghasem áfrýjaði til Innanríkisráðuneytisins og bíður enn eftir úrskurði. 

Ghasem hefur hvorki borðað né drukkið neitt síðan á mánudag, en Þjónustumiðstöð miðborgar og Hlíða sendi sjúkrabíl eftir honum á miðvikudagskvöld og dvaldi hann eina nótt á spítalanum þar sem hann fékk næringu í æð.

Hann ætlar sér að halda hungurverkfallinu áfram þar til Útlendingastofnun eða Innanríkisráðuneytið tekur umsókn hans til efnislegrar umfjöllunar.

Ghasem segir að í þá tuttugu mánuði sem hann hefur beðið eftir úrskurði um dvalarleyfi hafi engin haft afskipti af honum. Verst sé þó að geta hvorki unnið né farið í skóla. Hann er orðin örvæntingarfullur og þreyttur á biðinni og segist frekar vilja deyja hér á landi en fara aftur til Afganistans. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.