Zara Phillips hefur skrifað undir samning við hugbúnaðarfyrirtæki í Frakklandi um að leika í tölvuleik. Hún er fyrsti meðlimur bresku kóngafjölskyldunnar til þess að fá hlutverk í tölvuleik.
Hún þarf þó væntanlega ekki mikið að leika sjálf, heldur verður ímynd hennar fengin að láni. Í leiknum birtist tölvuteiknuð útgáfa af henni, þar sem hún gefur hestamönnum góð ráð um hestamennsku.
Ráðin munu að öllum líkindum birtast sem hugsanablöðrur við mynd af henni, eins og í Andrésblöðum. Hún verður sennilega ekki fengin til að talsetja leikinn, að sögn talsmanns fyrirtækisins.
Zara er barnabarn Elísabetar drottningar, og dóttir prinsessunnar Anne og fyrrum eiginmanns hennar.
Zara er fimmtánda í röðinni til að erfa bresku krúnuna, og verður því líklega aldrei drottning. Hún er aftur á móti virt hestakona í Bretlandi, og fékk silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í London 2012.
Zara Phillips í hestamannatölvuleik
Ugla Egilsdóttir skrifar
