Erlent

Mæla koltvísýring í andrúmslofti jarðar

Freyr Bjarnason skrifar
Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, ætlar 1. júlí að skjóta á loft gervihnetti sem mælir magn koltvísýrings í andrúmsloftinu.

Hann nefnist Orbiting Carbon Observatory-2, eða OCO-2, og verður þetta önnur tilraun NASA til að skjóta á loft gervihnetti sem mælir koltvísýring. Sú fyrsta var gerð árið 2009 en þá mistókst hnettinum að komast á sporbaug um jörðu.

OCO-2 mun mæla magn koltvísýrings af mikilli nákvæmni og meðal annars eftir árstíðum. Koltvísýringur er ein þeirra gróðurhúsalofttegunda sem koma í veg fyrir að hiti komist í burtu frá jörðinni.

Margir vísindamenn telja að mikil losun gróðurhúsalofttegunda verði til þess að hitastig jarðar hækki.

Frá því að iðnvæðingin hófst hefur losun koltvísýrings út í andrúmsloftið aukist mikið og samkvæmt NASA hefur hann ekki verið meiri í að minnsta kosti 800 þúsund ár. Mælitæki á jörðu niðri gefa til kynna að hann hafi aukist um tæp tuttugu prósent á síðustu fimmtíu árum.

Heimshöfin, plöntur og jarðvegur drekka í sig mestan koltvísýring og draga þannig úr magni hans í andrúmsloftinu. Aftur á móti er ekki vitað hversu mikið magnið er eftir svæðum jarðar og ekki heldur hvort magnið sem höfin, plöntur og jarðvegur drekka í sig hafi minnkað eftir því sem meiri koltvísýringi hefur verið dælt út í andrúmsloftið.

Bruni á jarðefnaeldsneyti og aðrar aðgerðir mannfólksins valda því að 40 milljörðum tonna af koltvísýringi er dælt út í andrúmsloftið á hverju ári, sem veldur því að þessi gróðurhúsalofttegund hefur safnast upp á löngum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×