Innlent

Almenningur beðinn um að tilkynna dýraníð

Jakob Bjarnar skrifar
Furðu margar tilkynningar um illa meðferð á dýrum koma lögfræðingnum Árna Stefáni Árnasyni í opna skjöldu.
Furðu margar tilkynningar um illa meðferð á dýrum koma lögfræðingnum Árna Stefáni Árnasyni í opna skjöldu. vísir/Stefán
Á síðasta ári bárust Matvælastofnun alls 371 ábending um illa meðferð á dýrum; 215 vegna búfjár og 156 vegna gæludýra.

Eftirlit með aðbúnaði dýra hefur verið skert. Um áramót tóku ný lög um velferð dýra gildi og einnig ný lög um búfjárhald. Þar með fluttust verkefni búfjáreftirlitsmanna til Matvælastofnunar. Búfjáreftirlitsmenn, sem störfuðu hjá sveitarfélögunum, voru um 40 manns en áætluð stöðugildi þeirra voru 10 – 12. Matvælastofnun hefur ráðið sex starfsmenn í þeirra stað í samræmi við stefnu stjórnvalda og fjárheimildir Alþingis.

Árni Stefán Árnason lögfræðingur hefur sérhæft sig í réttarstöðu dýra. Honum lýst afar illa á að fjárheimildir til eftirlits með aðbúnaði dýra séu skornar niður. „Þetta kemur mér mjög á óvart. Ný dýraverndunarlög tóku gildi fyrsta janúar og þau kveða á um að eftirlit skuli hert. Og að yfirvöld skuli draga úr fjármagni til þessa eftirlits kemur mér í opna skjöldu því einmitt hið gagnstæða var mikilvægt; að það yrði aukið. Þetta hef ég gagnrýnt. Eftirlit hefur verið mjög bágborið. Matvælastofnun þarf sannarlega á auknu fjármagni að halda til að geta staðið við þær skuldbindingar sem kveðið er á um í lögunum.“

Bændum mun bregða

Fjárheimildin felur að mestu í sér að Matvælastofnun er ætlað að afla eigin tekna, það er að innheimta gjald fyrir framkvæmt eftirlit. Kann mörgum bændum að bregða við að fá reikning frá Matvælastofnun í kjölfar heimsóknar.

Stefnt er að því að aðeins einn eftirlitsmaður komi að jafnaði frá stofnuninni  til að sinna öllu eftirliti í hverri heimsókn, misjafnt verður þá hvort eftirlitsmaðurinn er dýralæknir eða búvísindamaður að mennt, allt eftir því hvað til stendur að skoða hverju sinni.

Eftirlit Matvælastofnunar  með dýrahaldi og matvælaframleiðslu á frumframleiðslustað er umfangsmikið. Auk þess að þarf að bregðast við öllum ábendingum um illa meðferð á dýrum. Í nýrri tilkynningu frá stofnuninni segir að vegna fækkunar starfa í reglubundu eftirliti með dýrahaldi verður Matvælastofnun að treysta meira á almenning. Stofnunin hvetur fólk til að láta vita ef það hefur grun um illa meðferð á dýrum.

Ótrúlega margar tilkynningar

Eins og áður sagði bárust Matvælastofnun alls 371 ábending um illa meðferð á dýrum; 215 vegna búfjár og 156 vegna gæludýra. Þessi staðreynd kemur Árna Stefáni lögfræðingi einnig mjög á óvart.

„Já, það gerir það. Vegna þess að ég hefði haldið að við værum komin ögn lengra. Umtalið um velferð dýra á síðastliðnum árum hefur verið mjög mikið og ég hefði ekki búist við að það væru svona margar tilkynningar. Eflaust eiga einhverjar þeirra ekki við nein rök að styðjast og eru byggð á misskilningi. Engu að síður, tölurnar tala sínu máli, og þetta kemur mér á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×