Innlent

Vita ekki að kveikja þurfi ljósin

Gissur Sigurðsson skrifar
Vísir/GVA
Sparnaðaraðgerðir bílaframleiðenda varðandi ljósabúnað eru farnar að koma niður á öryggi í umferðinni. Samgöngustofu er kunnugt um óhöpp sem rekja má til ljósleysis nýrra bíla, án þess að ökumenn geri sér grein fyrir því.

Í ofurkapphlaupi framleiðenda við að sýna fram á sem minnsta orkunotkun bílanna er farið að hafa ljósabúnaðinn þannig, að þegar bíllinn er gangsettur, kviknar aðeins á svonefndum dagljósabúnaði að framan, en bílarnir eru ljóslausir að aftan og dagljósin eru ekki nægileg eftir að skyggja tekur.  

Því er það orðið svo í mörgun nýjum bílum að ökumenn verða sérstaklega að kveikja á viðeigandi ljósum eftir að bíllinn hefur verið settur í gang. Ökumenn eru almennt vanir því að það gerist sjálfkrafa þannig að þeim hættir til að gleyma þessari viðbótaraðgerð áður en haldið er af stað. Ungt fólk veit ekki einu sinni að þess hafi einhverntímann þurft.  

Einar Magnús Magnússon, kynningarstjóri Samgöngustofu, segir að stofunni hafi borist fjöldi ábendinga um að nýir bílar séu alveg ljóslausir að aftan í myrkri, þoku og slæmu skyggni og að óhöpp hafi hlotist af. Hann  hvetur því ökumenn nýrra bíla til að kynna sér vél ljósabúnað bíla sinna, sér og öðrum til öryggis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×