Lífið

Leysa algengt peningavandamál

Gunnar Leó Pálsson skrifar
leysa vandann Hér eru þeir Arnar Jónsson, Gunnar Helgi Gunnsteinsson, Jón Dal Kristbjörnsson og Trausti Sæmundsson hafa unnið að smíði nýs greiðsluapps sem kallast Sway.
leysa vandann Hér eru þeir Arnar Jónsson, Gunnar Helgi Gunnsteinsson, Jón Dal Kristbjörnsson og Trausti Sæmundsson hafa unnið að smíði nýs greiðsluapps sem kallast Sway. vísir/gva
„Við erum að leysa vandamál sem flestir þekkja vel. Þegar þú leggur út fyrir einhverju og vinirnir gleyma að borga þér,“ segir Arnar Jónsson, einn af stofnendum frumkvöðlafyrirtækisins Memento sem unnið hefur að þróun nýs greiðsluapps sem kallast Sway. Memento tók þátt í Gullegginu seinasta vor og komst þar í úrslit.

Um er að ræða smáforrit sem gerir kleift að halda utan um greiðslur og rukkanir milli vina, vandamanna eða hópa en með appinu má ganga frá greiðslum samstundis bæði á einfaldan og skemmtilegan hátt. „Það er ákveðið vandamál sem getur fylgt því að taka þátt í sameiginlegum útgjöldum en ýmsir kannast við vandræðin sem fylgja því að skipta reikningi á veitingastað, fara í kortaleikinn í leigubílnum, rukka vin um pítsu frá helginni áður eða allt utanumhaldið sem getur fylgt því að kaupa gjafir með öðrum. Oft lendir reikningurinn á einhverjum einum en seinlegt og óþægilegt getur reynst að innheimta þessar skuldir án þess að togstreita myndist,“ útskýrir Arnar.

Hugmyndafræði Memento er að fyrir hverja greiðslu eða rukkun sé viðeigandi að taka mynd af atburðinum – upphæðinni til staðfestingar. Með þessu móti verður greiðsluferlið bæði skemmtilegra og félagsmiðaðra. Á einfaldan hátt geta notendur fundið vini sína og búið til tengslanet. „Kerfið er óháð bönkum, og í rauninni töluvert frábrugðið þeim greiðslulausnum sem við þekkjum í dag,“ segir Gunnar Helgi einn af stofnendunum.

„Það má segja að þetta sé eins og Snapchat eða Instagram fyrir greiðslur,“ bætir hann við.

Fyrirtækið hefur í eitt ár unnið að smíði appsins sem gefur notandanum kost á að hafa fullkomna yfirsýn yfir ógreiddar skuldir ásamt því að öll samskipti er varða vinagreiðslur eru á einum stað. Það er liðin tíð að þurfa að biðja vini um kennitölu og reikningsnúmer. Þessi lausn hentar því vel fyrir bæði einstaklinga, hópa, góðgerðarsamtök sem og félagasamtök.

Sway er hannað fyrst og fremst með öryggi að leiðarljósi. Sett hefur verið saman gott teymi á sviði öryggismála og gagnagrunnskerfa sem hafa séð til þess að öryggi verði á heimsmælikvarða.

Starfsmenn Sway eru nú að álagsprófa smáforritið en það mun fara í notkun á meðal almennings innan skamms. Forritið virkar bæði fyrir stýrikerfi Apple og Android.

Sway app
Ýmislegt um appið

Kerfið er byggt upp ekki ósvipað þekktum samfélagsmiðlum líkt og Snapchat og Instagram þar sem samskipti með ljósmyndir og persónuleg tengslanet eru þungamiðjan. Hugmyndafræði Memento er að fyrir hverja greiðslu eða rukkun sé viðeigandi að taka mynd af atburðinum – upphæðinni til staðfestingar. Með þessu móti verður greiðsluferlið bæði skemmtilegra og félagsmiðaðra (e. more social). Í raun má segja að með Sway sé verið að færa netbankaþjónustu og snjallsímagreiðslur bankanna upp á annað stig.

Sway er hannað fyrst og fremst með öryggi að leiðarljósi. Sett hefur verið saman teymi helstu öryggissérfræðinga landsins sem hafa séð til þess að öryggi er á heimsmælikvarða bæði á sviði almenns netöryggis sem og gagnavörslu.

Sway er hannað og þróað samhliða innleiðingu öryggismála og því bitna öryggisþættirnir lítið á notendaupplifuninni.

Allt fjármagn er geymt á bankareikningi hjá viðskiptabanka og því ekkert eiginlegt fjármagn í kerfinu sjálfu. Auðvelt er að tengja debet- og kreditkort við kerfið en engar kortaupplýsingar eru geymdar hjá Sway heldur eingöngu hjá færsluhirðum.

Öll samskipti sem og gögn eru dulkóðuð skv. nýjustu stöðlum.

Persónuupplýsingum er haldið leyndum fyrir öðrum notendum.

Kerfið verður einungis aðgengilegt í gegnum snjallsíma. Af öryggisástæðum verður ekki hægt að skrá sig inn í kerfið í síma annarra heldur einungis í þeim síma sem aðgangur var stofnaður. Þannig má tryggja að aðeins sé hægt að opna Sway-aðganginn úr eigin síma þar sem hver notandi er auðkenndur í sínu símtæki.

Hefðbundin pin-númer verða að sjálfsögðu til staðar þegar greitt er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.