Lífið

Lifa tvöföldu lífi á samfélagsmiðlum

Hér má sjá skjáskot af myndasíðum nokkurra stúlknanna.
Hér má sjá skjáskot af myndasíðum nokkurra stúlknanna.
Netöryggi hefur mikið verið rætt í fjölmiðlum upp á síðkastið. Mikið hefur borið á því undanfarið að íslenskar unglingsstúlkur noti samskiptamiðilinn Instagram til þess að tjá erfiðar tilfinningar.

Instagram-síðurnar ganga þannig fyrir sig að notandinn deilir þar myndum að eigin vali, en getur ráðið hvort síðan er opin öðrum notendum eða hvort biðja þurfi sérstaklega um aðgang að henni. Svo virðist sem þær noti opna aðganginn til þess að setja upp eins konar fullkomna ímynd. Á lokaða aðganginum birta þær svo myndir sem eru kannski raunverulegri eða sýna líf þeirra og líðan í réttu ljósi. Undir myndirnar skrifa þær athugasemdir á borð við „Ég hef alltaf verið ósátt með líkama minn“ eða „Vildi óska þess að ég myndaðist vel“. Stúlka á fermingaraldri setti inn mynd af sígarettu og skrifaði undir „tvær á dag koma skapinu í lag“.



Fréttablaðið hafði samband við unglingsstúlku sem þekkir þetta vel og lýsti svona: „Þær setja allt þarna inn og setja viljandi ljótar myndir þarna í staðinn fyrir að setja það á opnu síðuna, því þar á allt að vera fullkomið. Þetta er eiginlega eins og að eiga annað líf þar sem þær segja hvað allt sé ömurlegt og þær ömurlegar.“



Hrefna Hrund Pétursdóttur, sálfræðingur í Forvarna- og meðferðarteymi barna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, segir að mögulega sé þetta leið þessara unglingsstúlkna til að fá útrás fyrir erfiðar tilfinningar sem þær séu ekki tilbúnar að deila nema með útvöldum. Í sumum tilvikum gæti þetta hreinlega verið kall á hjálp.



„Það er þekkt að sumir einstaklingar, sem líður illa, setji upp grímu til þess að aðrir sjái ekki hversu illa þeim líður, en þeim líður í raun mjög illa. Þetta gæti verið birtingarmynd af því sem hefur þá færst á netið,“ segir Hrefna, og á þá við að opni aðgangurinn sé líkur þeirri grímu sem fólk notar til að fela raunverulegar tilfinningar sínar. - asi






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.