Innlent

„Þetta er stór sjónvarpsviðburður á næsta ári, sem Íslendingar þekkja mjög vel"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Tónskáldið Ólafur Arnalds hlaut í gær BAFTA verðlaunin fyrir frumsamda tónlist í sjónvarpsþáttunum Broadchurch, sem sýndir voru á Stöð 2 og í meðfylgjandi myndskeiði má sjá skot frá verðlaunaafhendingunni og úr skemmtilegri þakkarræðu Ólafs.

Það lá vel á honum þegar fréttastofa sló á þráðinn í dag.

„Mér líður bara nokkuð vel, miðað við magn kampavíns í gær sem ég innbyrti í gær,“ segir hann og hló. „Þetta er auðvitað mikill heiður og gaman að fá þessa viðurkenningu.“

Síminn hefur vart stoppað hjá Ólafi í dag og hafa bæði kvikmyndaframleiðendur og aðrir haft samband.

„Ég er kominn með eitt rosalega flott óformlegt tilboð en þar sem það er óformlegt má ég ekki segja hvað það er. Ég fékk það strax í gær á hátíðinni, um leið og ég kom af sviðinu,“ segir hann leyndardómsfullur.

Viltu gefa einhverjar vísbendingar um hvers konar verkefni þetta er?



„Þetta er stór sjónvarpsviðburður á næsta ári, sem Íslendingar þekkja mjög vel,“ segir hann.

Hann er ekki fyrsti Íslendingurin til að hljóta þessi virtu verðlaun því árið 2004 fékk Valdís Óskarsdóttir þau fyrir klippingu á myndinni Eternal Sunshine of the Spotless Mind og árið 2006 fékk Latibær þau í flokki alþjóðlegs barnaefnis.

Ólafur tekur nú sumarfrí en hefur svo vinnu við næstu þáttaröð af Broadchurch. Hann afþakkaði þó að semja tónlist fyrir bandaríska útgáfu þáttanna, þar sem honum finnst óspennandi að fara aftur á byrjunarreit með verkefnið.


Tengdar fréttir

Maður er bara hálfsjokkeraður

Tónskáldið Ólafur Arnalds hlaut verðlaun fyrir bestu frumsömdu tónlist í sjónvarpsþætti á BAFTA hátíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×