Badmintonsamband Íslands komst í gær að samkomulagi við Frímann Ara Ferdinandsson og Helga Jóhannsson um að taka við starfi landsliðsþjálfara Íslands í badminton.
Mun Frímann Ari sjá um þjálfun A-landsliðsins og Helgi Jóhannesson mun sjá um þjálfun unglingalandsliðanna.
Frímann Ari Ferdinandsson er íþróttafræðingur að mennt og hefur lokið ýmsum þjálfaranámskeiðum í badminton. Hann hefur komið að þjálfun í badminton síðan 1990 og m.a. verið unglingalandsliðsþjálfari og aðstoðarlandsliðsþjálfari. Þá hefur hann sinnt fræðslumálum fyrir Badmintonsamband Íslands um árabil.
Helgi Jóhannesson hefur orðið fimm sinnum Íslandsmeistari í einliðaleik, 10 sinnum í tvíliðaleik og tvisvar í tvenndarleik. Hann hefur tekið námskeið í þjálfun í badminton og sækir nú námskeið í Danmörku á sviði afreksþjálfunar. Helgi hefur starfað sem þjálfari undanfarin ár hjá TBR.

