Innlent

Skúr með ómetanlegum listaverkum fauk um koll

Jakob Bjarnar skrifar
Hrafn sýnir ljósmyndara Vísis vegsummerki og lætur sér hvergi bregða þó heil listasýning sé á hvolfi í hlaði hans.
Hrafn sýnir ljósmyndara Vísis vegsummerki og lætur sér hvergi bregða þó heil listasýning sé á hvolfi í hlaði hans. visir/pjetur
Skúr með ómetanlegum listarverkum fauk um koll í óveðrinu sem var um síðustu helgi. Ekki er enn vitað hvort um verulegt tjón er að ræða.

Gjörningalistamaðurinn heimsþekkti, Ragnar Kjartansson, opnaði myndlistarsýningu í Skúrnum, fyrir um mánuði. Ragnar málaði portrettmyndir meðan fyrirsætan, Bjarni Friðrik Jóhannsson sat fyrir og hlustaði í sífellu á slagarann Take it easy með Eagles.

Skúrinn fauk um koll í óveðrinu mikla á sunnudaginn, en hann er staðsettur við hús Hrafns Gunnlaugssonar úti á Laugarnestanga. Ekki hefur tekist að ná tali af Ragnari þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, en Hrafn segir þetta tilkomumikið, og vísar til Skúrsins sem nú er á hvolfi á hlaði hans. Eiginlega hvernig sem á er litið.

visir/pjetur
„Hann var að mála þarna í tvo sólarhringa. Einskonar happening. Skúrinn hefur staðið hér síðan og verið sýning. Svo fauk hann með látum. Hann er hér á hvolfi bara á bílastæðinu. Það er dramatískt að horfa á þetta. Með allri myndlistinni inni í. Nokkur málverk sem hann málaði og eiga víst að fara víðar, í einhver söfn úti í heimi. En, jájá, það getur orðið hvasst hérna á Laugarnestanganum,“ segir Hrafn – og lætur sér hvergi bregða, frekar að honum þyki þetta skemmtilegt.

„Kannski er þetta partur af innstalleringunni? Að skúrinn fjúki. Hann stendur hérna alveg við húsið. Fallegur staður. Öll Reykjavík í bakgrunni, alveg á sjávarkambinum, eins gott að hann fauk ekki út í sjó, heldur í hina áttina.“ Og það er vitaskuld laukrétt hjá Hrafni; skúrinn sjálfur, umgjörðin, er hluti listaverksins og þjónar reyndar, sem slíkur, fleiri listamönnum.

Hrafn segir að Ragnar og hans menn hafi komið og tekið þetta út. „Já, voru að skoða þetta og aðstæður. Þeir ætla að koma skúrnum fyrir einhvers staðar annars staðar og halda sýningunni áfram. Þetta var ansi flott, falleg málverk og gaman að hafa þá þegar þeir voru hérna.“


Tengdar fréttir

Bjarni Bömmer hlustar á Take it easy

Skúrinn stendur nú við hús Hrafns Gunnlaugssonar og þar opnar Ragnar Kjartansson sérstæða myndlistarsýningu á morgun. Bjarni hlustar á Eagles á meðan Ragnar málar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×