Innlent

Akurnesingar beðnir um að fara sparlega með heita vatnið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Starfsfólk Orkuveitunnar biður Akurnesinga afsökunar á heitavatnsskorti.
Starfsfólk Orkuveitunnar biður Akurnesinga afsökunar á heitavatnsskorti. Vísir/GVA
Ítrekaðar bilanir á aðveituæð hitaveitunnar til Akraness, Deildartunguæðinni, ollu því að bærinn hefur verið heitavatnslaus frá því síðdegis í gær. Orkuveitan biður íbúa um að fara sparlega með heita vatnið meðan jafnvægi er komið á í rekstri hitaveitunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Í gær var unnið að tengingu nýs heitavatnsgeymis á Akranesi, en hlutverk hans er að draga úr líkum á því að heitavatnsskortur verði í bænum. Við þá vinnu lækkaði mjög í eldri geyminum þar sem loka þurfti fyrir aðveituæðina.

Að vinnunni lokinni, þegar vatni var hleypt á að nýju, bilaði lögnin. Vegna lágrar vatnsstöðu í geyminum varð fljótlega vatnslaust  á Akranesi. Eftir að viðgerð lauk í gærkvöldi var hleypt á að nýju. Þá vildi ekki betur til að að aftur bilaði. Það var um tvöleytið í nótt.

Starfsfólk Orkuveitunnar lauk viðgerð á þeirri bilun síðla nætur og verið er að ná upp þrýstingi í aðveitunni og dreifikerfi bæjarins. Þetta þýðir þó að lágur þrýstingur verður í hitaveitunni á Akranesi í allan dag og biður Orkuveitan íbúa að fara sparlega með heita vatnið meðan jafnvægi er komið á. Það getur falist í því að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar meira en þörf krefur til að ekki kólni í húsum meira en orðið er.

Starfsfólk Orkuveitunnar biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×