Sif Pálsdóttir, ein fremsta fimleikakona landsins frá upphafi, segir frá því hvernig hún hafi verið orðin ein á báti í áhaldafimleikum þegar hún var sautján til átján ára.
„Þá voru hópfimleikar til staða í félaginu mínu. Vinkonur mínar margar æfa hópfimleika. Auðvitað spjallaði maður við þær en mig langaði til að vera hluti af þessum hóp,“ segir Sif í skemmtilegu innslagi í tilefni mótsins í næstu viku.
Sif rifjar upp feril sinn og þegar hún kynntist vinkonu sinni og annarri fimleikakempu, Fríðu Rún Einarsdóttir. Sif hefur ferðast um allan heim og keppt í áhaldafimleikum og snýr nú aftur í lykilhlutverki í landsliði Íslands í hópfimleikum. Þær voru saman í liði Íslands sem vann gullverðlaun á Evrópumótinu í Árósum 2012. Að því loknu hættu þær keppni.
„Þegar við fréttum af mótinu hérna heima kitlaði smá tilhugsunin að við Fríða gætum verið saman í liði, með frábærum hóp, flottu þjálfarateymi og fá að keppa á heimavelli með troðfulla stúku. Að fá að upplifa þessa tilfinningu sem maður hefur svo oft upplifað og ná að skila þessu gulli í þriðja skipti inn.“
Miðasala á mótið fer fram á Midi.is en hér að neðan má sjá innslagið með Sif ásamt fleiri innslögum í tengslum við mótið. Merkið #TEAMGYM2014 verður notað á samfélagsmiðlum á meðan á mótinu stendur.