Innlent

Litlar líkur á að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu

Hjörtur Hjartarson skrifar

Utanríkisráðherra segir ólíklegt að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu á yfirstandandi kjörtímabili um áframhald viðræðna við Evrópusambandið. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort tillaga um formleg slit á viðræðunum verði lögð fram á komandi þingi.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu á síðasta þingi um að Ísland myndi slíta viðræðunum við ESB. Hávær mótmæli voru við tillögunni og kom á endanum ekki til þess að greitt yrði um hana atkvæði. Gunnar Bragi útilokaði ekki á sínum tíma að tillagan yrði lögð fram að nýju þegar þing kæmi saman í haust.

„Það hefur ekkert verið rætt hvort sú tillaga verði lögð fram eða hvort það sé þörf á því. Við höfum nú séð í fréttum og í yfirlýsingum frá Evrópusambandinu til dæmis þar sem Juncker lét hafa eftir sér að það yrði engin frekari stækkun á næstu fimm árum. Við eigum ekkert í viðræðum Evrópusambandið og því held ég að menn verði að velta því fyrir sér hvort það sé einhver þörf á að fara með slíka tillögu inn, hvort þetta sé bara ekki hreinlega búið af hálfu Evrópusambandsins,“ segir Gunnar Bragi.    
Gunnar reiknar ekki með að þjóðaratkvæðargreiðsla um áframhald viðræðna verði lögð fram á kjörtímabilinu enda þjóni slíkt litlum tilgangi á meðan fjölgun þjóða í ESB sé ekki á dagskrá hjá sambandinu.

„Evrópusambandsaðild eða umsókn er alls ekki í neinum forgangi hér í ráðuneytinu. Það er enginn að vinna í því hér einu sinni. Þannig að ég lít nú svo á að skilaboðin frá Juncker, þau nýjustu, séu þau að Ísland er ekkert að fara að ganga í Evrópusambandið.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.