Lífið

Emma Watson nýr velgjörðarsendiherra UN Women

Emma Watson
Emma Watson Vísir/Getty
UN Women, samtök sem fara með umboð Sameinuðu Þjóðanna til að vinna að jafnrétti kynjanna og stuðla að því að stefnumótun í þróunarstarfi taki mið af jafnréttissjónarmiðum og réttindum kvenna í samræmi við alþjóðleg markmið, útnefndu nýjan velgjörðarsendiherra samtakanna Emmu Watson.

Emma Watson er hvað best þekkt fyrir hlutverk sitt sem Hermione Granger í Harry Potter kvikmyndunum. Hún er virt leikkona og nýlega útskrifuð úr Brown háskólanum í Bandaríkjunum, en er einnig þekkt fyrir störf sín í þágu hinna ýmsu góðgerðarsamtaka.

UN Women veitir tæknilegan og fjárhagslegan stuðning til verkefna sem ætlað er að efla réttindi kvenna, þátttöku þeirra í stjórnmálum, efnahagslegt sjálfstæði og verkefni sem stuðla að afnámi ofbeldis gegn konum og stúlkum.

„Þátttaka ungs fólks er sérstaklega mikilvæg nú þegar baráttan að jafnrétti kynjanna hefur aldrei verið öflugri á 21. öldinni. Ég er handviss um að gáfur Emmu og ástríða muni gera gæfumuninn í því að koma skilaboðum UN Women á framfæri við ungt fólk um allan heim,“ segir Mlambo-Ngcuka, hjá UN Women.

Watson hefur í mörg ár unnið að því að efla menntun ungra kvenna um allan heim, meðal annars í Bangladesh og í Zambíu.

„Réttindi kvenna er málefni sem er mér hugleikið og eru hluti af mér. Ég get ekki ímyndað mér eins spennandi tækifæri og þetta. Ég á margt eftir að læra, en ég vonast til þess að geta gefið af mér, það sem ég þegar veit, í þessu hlutverki velgjörðarsendiherra,“ segir Emma Watson.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×