Lífið

Gat ekki hlustað á Tears in Heaven eftir sonarmissinn

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Lory Del Santo og feðgarnir.
Lory Del Santo og feðgarnir.
Lory Del Santo, sem eignaðist barn með tónlistarmanninum Eric Clapton, kom fram í útvarpsþættinum Outlook á BBC og tjáði sig um dauða sonar síns. Hún eignaðist son sinn Conor Clapton árið 1987 en hann lést fjórum árum síðar þegar hann féll niður af 53. hæð í háhýsi í New York. Eric Clapton samdi lagið Tears in Heaven um sonarmissinn.

Hin ítalska Del Santo segir í viðtalinu frá stuttu lífi sonar síns, dauðadeginum og kynnum hennar og Clapton, sem var giftur annarri konu þegar þau kynntust. Del Santo ól Conor upp ein. Del Santo er þekkt á Ítalíu, en hún var fyrirsæta á sínum yngri árum en er nú leikkona og stýrir sjónvarpsþáttum þar í landi.

Del Santo segir frá því þegar hún kom inn í svefnherbergið, eftir að sonur hennar hafði fallið út um glugga á 53. hæð. Hún segir frá seinasta kvöldinu sem sonur hennar átti með henni og Clapton. En þá fóru þau þrjú saman í sirkus. Del Santo segir að það hafi ekki verið algengt að þau þrjú næðu að eyða tíma saman, en hún ól Conor upp ein. 

Hún segist ekki hafa getað hlustað á lagið Tears in Heaven fyrst eftir sonarmissinn.

Hélt að hann héti Klapton

Í viðtalinu segir Del Santo frá því hvernig hún kynntist tónlistarmanninum Clapton. Þau kynntust þegar Clapton hélt tónleika í Mílanó á Ítalíu. Vinur Del Santo sagði henni frá því að Clapton hefði áhuga á henni og vildi bjóða henni út að borða, sem hún afþakkaði en fór og hitti hann engu að síður.

„Ég sá þennan skeggjaða mann, sem ég vissi ekki hver var. Hann sagði eiginlega ekki neitt, en spurði mig hvað ég ætlaði að gera daginn eftir. Og ég sagðist ekki vera að gera neitt, þannig að hann spurði hvort við ættum að hittast og það var nóg.“

Daginn eftir las hún um Clapton í ítölsku blöðunum og fullvissaði hún sig þá um að hún vildi hitta hann aftur. Hún skrifaði á miða „Ekki gleyma að hitta Klapton í kvöld“. Hún segir frá því þegar Clapton bauð henni í heimsókn í hótelherbergið sitt. „Ég veit að svona menn hitta konur á hótelherbergjunum sínum mjög oft og gleyma þeim strax. En mér fannst þetta vera reynsla sem ég myndi aldrei gleyma, þannig að ég ákvað að slá til,“ útskýrir Del Santo.

Eftir skyndikynni þeirra á hótelherbergi Clapton taldi sú ítalska að þeirra samskiptum væri lokið. Stuttu seinna hringdi Clapton í hana og sagðist vera kominn aftur til Mílanó, því hann elskaði hana.

Eric Clapton samdi lagið Tears in Heaven um son sinn, Conor Clapton sem lést fjögurra ára gamall:

Ákváðu að eignast barn saman

Del Santo og Clapton héldu áfram að hittast, en á þessum tíma var hann giftur fyrirsætunni Pattie Boyd, en hjónin höfðu lítil samskipti á þessum tíma.

Clapton og Del Santo ákváðu að eignast barn saman. Hún segir frá samtali þeirra um málið. „Hann spurði mig hvað mig dreymdi um og ég svaraði því að ég væri að verða gömul – þó ég væri bara 26 ára – og að mig langaði í barn.“ Hún segir Clapton hafa tekið í sama streng og þar með var ákveðið að þau myndu reyna að eignast barn.

Rétt áður en Conor fæddist gaf Clapton út lagið Lady of Verona, sem hann tileinkaði Del Santo.

Del Santo vildi eignast soninn í London og Clapton keypti handa henni íbúð þar í borg. Hún segir frá því hvernig hann fann besta spítalann í borginni, þar sem Conor fæddist og hversu vel hann hugsaði um hana. Clapton gaf út plötuna August á þessum tíma því Conor fæddist í ágúst.

Parið var ekki saman, en Clapton reyndi að hitta son sinn þegar hann gat, að sögn Del Santo. Clapton kom fram í fréttaskýringaþættinum 60 minutes, rétt fyrir aldamót og sagði frá því að hann hafi ákveðið að fara í meðferð við áfengismeðferð og eiturlyfjafíkn sinni, vegna Conor.

Lory Del Santo, árið 1981.
Engin eins og Conor

Conor var fjögurra ára þegar hann lést. Del Santo segir hann hafa verið algjörlega einstakt barn. Hún segir hann hafa verið söngelskan og með gullfallega rödd. „Ég hef átt tvö börn eftir dauða hans. En hann var algjörlega einstakur,“ útskýrir hún.

Conor lést í New York. Daginn áður en hann dó fóru Del Santo og Clapton saman í sirkus með syni sínum. Hún segir það kvöld hafa verið yndislegt og að þau hafi verið eins og lítil fjölskylda.

Del Santo segir svo frá dauðadegi Conor hispurslaust. Hún segir frá því hvernig ræstitæknir sem var að þrífa íbúðina þeirra á 53. hæð í háhýsi í Manhattan, hafi skilið eftir glugga í svefnherginu opinn til að lofta út. Conor var í feluleik með barnapíu sinni og var hlaupandi um íbúðina. Hann hafi síðan hlaupið inn í svefnherbergið og út um gluggann.

Del Santo segir frá þögninni í íbúðinni. „Ég fór inn í svefnherbergið og sá gluggann opinn og barnið var horfið. Ég hugsaði með mér að þetta hlyti að vera endirinn,“ rifjar hún upp. Clapton kom stuttu seinna, en hann hafði ætlað að hitta Conor og sagði Del Santo honum frá þessu.

Tears in Heaven

Clapton samdi lagið Tears in Heaven til minningar um Conor. Del Santo segist fyrst ekki hafa viljað hlusta á lagið. „Ég var að flýja raunveruleikann.“

En hún ákvað svo að hlusta á lagið. „Ég viðurkenni að þetta er fallegt lag, alveg stórkostlegt. Maður finnur hjartað sitt hristast.“

Hún segir það hafa verið ákaflega erfitt að skilja sonarmissinn. „Lífið er eins og að ganga yfir á. Maður veit aldrei hvort maður komist yfir,“ segir hún að lokum.

Eric Clapton, árið 1985.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.