Innlent

Erlendri eiginkonu Íslendings vísað úr landi: „Af hverju er ekki farið að lögum?“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gísli Jóhann Grétarsson.
Gísli Jóhann Grétarsson. vísir/daníel
Izekor Osazee, flóttamaður frá Nígeríu, kom hingað til lands í ágúst árið 2012 og sótti um hæli. Hún var handtekin í morgun þegar hún kom á lögreglustöð til að sinna tilkynningaskyldu. DV greindi fyrst frá málinu.

Izekor giftist Gísla Jóhanni Grétarssyni í síðasta mánuði. Í síðustu viku var henni tilkynnt að vísa ætti henni úr landi og bar henni að tilkynna sig til lögreglu daglega fram að því. Izekor bar að mæta á lögreglustöðina alla daga á milli klukkan tvö og þrjú.

„Við höfðum ekki hugmynd um það hvenær við ættum að mæta. Við mættum alltaf snemma dags og kvittuðum undir. Þetta virðist hafa verið túlkað sem dónaskapur og núna hafa þeir tekið hana,“ segir Gísli, eiginmaður Izekor.

Lögmaður hjónanna segir framkomu ríkislögreglustjóra óforskammaða. „Hún mætti of snemma og fyrir það skal henni refsað. Nú er hún talin ógn og ákvörðun um brottvísun hennar hefur verið tekin út frá því,“ segir Helga Vala Helgadóttir, lögmaður Izekor og Gísla. 

Útlendingastofnun hafði tekið ákvörðun um að senda Izekor til Finnlands á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar og var henni neitað um stöðu flóttamanns.

Helga segir að undanþágu sé hægt að fá frá meginreglu um að útlending beri að sækja um dvalarleyfi áður en hann kemur til lands. „Þessari undanþágu á að beita þegar um er að ræða maka annars vegar og hins vegar þegar um er að ræða einhvern með viðkvæmar aðstæður. Í þessu tilfelli á hvoru tveggja við.“

Samkvæmt Útlendingastofnun er skilyrði til að fá útgefið dvalarleyfi hér á landi til dæmis að umsækjandi sé í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og leggi fram gögn því til staðfestu. Maka Íslendings er heimilt að dvelja hérlendis á meðan umsókn er til meðferðar, hafi hann komið hingað til lands á lögmætan hátt.

„Ég spyr mig bara, af hverju er ekki farið að lögum? Þetta er annað tilfellið á einni viku. Það er farið með þetta fólk eins og hunda. Látið eins og þau séu ekki til,“ segir Helga.

Töluverður fjöldi fólks hefur mótmælt ákvörðun ríkislögreglustjóra við Lögreglustöðina á Hverfisgötu í dag.  Gísli hvetur alla þá sem vilja sýna stuðning að mæta og leggja þeim lið.

„Þetta er eiginkona mín. Fjölskylda mín. Ég mun standa með henni og verði hún send úr landi mun ég líka fara úr landi,“ segir Gísli.

Frá brúðkaup þeirra hjóna í apríl síðastliðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×