Íslenski boltinn

Guðmundur tekur við Breiðabliki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Guðmundur Benediktsson mun stýra liði Breiðabliks í Pepsi-deild karla sumar þar sem  Ólafur Kristjánsson er hættur störfum hjá félaginu. Willum Þór Þórsson verður aðstoðarþjálfari Guðmundar.

Knattspyrnudeild Breiðabliks sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem þetta var staðfest. Þar segir enn fremur að Ólafur muni taka við þjálfun danska úrvalsdeildarfélagsins Nordsjælland frá og með 1. júlí næstkomandi.

Ólafur mun stýra Breiðabliki til 2. júní en þá tekur Guðmundur við. Ólafur verður því á hliðarlínunni í fyrstu sex leikjum Blika í Pepsi-deildinni.

Guðmundur, sem þjálfaði áður lið Selfoss, varð aðstoðarþjálfari Ólafs hjá Blikum árið 2011. Hann var áður aðstoðarmaður Willums Þórs hjá Val og KR og á þar að auki langan feril að baki sem leikmaður.

Yfirlýsing Breiðabliks:

„Guðmundur Benediktsson mun taka við þjálfun karlaliðs Breiðabliks í Pepsi-deildinni í byrjun júní en frá og með 1. júlí mun Ólafur Kristjánsson taka við þjálfun FC Nordsjælland í dönsku A-deildinni. Guðmundur hefur verið aðstoðarþjálfari Ólafs frá 2011. Knattspyrnudeild Breiðabliks þakkar Ólafi fyrir frábært samstarf og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Ólafur mun stýra Breiðabliksliðinu til 2. júní. Fram að því mætir Breiðablik liðum FH, KR, Keflavíkur, Fjölnis, Fram og Stjörnunnar í Pepsi-deildinni. Á fimmtudaginn, sumardaginn fyrsta, mætir Breiðablik FH í úrslitaleik Lengjubikarsins.

Guðmundur Benediktsson hóf þjálfun á Selfossi eftir farsælan knattspyrnuferil með nokkrum félögum á Íslandi og í útlöndum og með íslenska landsliðinu. Hann varð aðstoðarþjálfari hjá Breiðabliki 2011. Willum Þór Þórsson verður Guðmundi til aðstoðar. Willum er fyrrum leikmaður Breiðabliks og vann til tvennra Íslandsmeistaratitla sem þjálfari KR og bikar- og Íslandsmeistaratitils með Val.

Ólafur tók við Breiðabliksliðinu um mitt sumar 2006. Undir hans stjórn hefur liðið unnið sína stærstu sigra; bikarameistaratitilinn árið 2009 og Íslandsmeistaratitilinn 2010. Liðið hefur verið á meðal nokkurra bestu liða landsins alla tíð síðan og er ríkjandi Lengjubikarmeistari.

Knattspyrnudeild Breiðabliks horfir á eftir Ólafi með söknuði um leið og deildin fagnar með honum þessu frábæra tækifæri sem honum býðst. Hann hefur leitt karlaliðið til stærstu sigra þess og undir hans stjórn hafa sprottið úr grasi framúrskarandi knattspyrnumenn sem standa sig frábærlega með Breiðabliksliðinu en ekki síður haslað sér völl í útlöndum. Knattspyrnudeild Breiðabliks er stolt af því.“


Tengdar fréttir

BT: Ólafur á leið til Nordsjælland

Danska blaðið BT staðhæfir að danska úrvalsdeildarfélagið Nordsjælland eigi í viðræðum við Ólaf Kristjánsson, þjálfara Breiðabliks.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.