Innlent

Ungur ökumaður fagnaði prófi á íþróttavellinum á Akranesi

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
VÍSIR/GVA
Talsverður erill var hjá lögreglunni á Akranesi um páskahelgina. Ungur ökumaður, nýkominn með bílpróf, missti sig aðeins í gleðinni yfir réttindunum og tók einn fagnaðarhring um áhorfendasvæðin á íþróttavellinum á Jaðarsbökkum á lítilli jeppabifreið. Skemmdirnar urðu ekki miklar en má ökumaðurinn ungi búast við því að bæta það tjón sem hann olli.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir um helgina grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar reyndist vera undir áhrifum kannabisefna en hinn var undir áhrifum kókaíns og amfetamíns. Báðir voru handteknir en sleppt að loknum skýrslutökum og töku blóðsýna.

Einn gist fangageymslur sökum ölvunar. Sá hafði verið æstur og ógnandi í hegðun á skemmtistað í bænum. Þegar lögreglan mætti á svæðið lamdi maðurinn lögreglubifreiðina að utan og ógnaði lögreglumönnum.

Þá var tilkynnt um þjófnað á skíðabúnaði sem var í boxi á bifreið aðfaranótt 21. apríl. Tvennum barnaskíðum, skóm og öðrum búnaði sem var í boxinu var stolið. Þeir sem urðu varir við einhvern sem gekk um götur bæjarins með skíðabúnað þessa nótt er beðnir að hafa samband við lögregluna á Akranesi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×