Innlent

Umbylting á félagslega íbúðakerfinu

Heimir Már Pétursson skrifar
Alþýðusambandið kynnti í dag nýtt félagslegt húsnæðiskerfi sem myndi gerbylta ástandinu á félagslega leigumarkaðnum. Byggðar verði þúsund íbúðir á ári næstu fimm árin og sex hundruð íbúðir á ári eftir það, með aðkomu húsnæðisstofnunar, ríkis og sveitarfélaga. Kerfið yrði sjálfbært á 40 árum.

Alþýðusambandið segir að það hafi verið mistök að einkavæða verkamannabústaðina árið 2002. Síðan þá hafi safnast upp vandi hjá tekjulægstu hópunum í samfélaginu sem í dag greiði allt að 45 prósent tekna sinna í húsnæðiskostnað.

Alþýðusambandið kynnti í dag hugmyndir sínar um nýtt félagslegt húsnæðiskerfi ásamt kostnaðarmati. En ASÍ telur að allt að 25 prósent vinnandi fólks þurfi á félagslegu húsnæði að halda. Íbúarnir legðu fram 2 prósent af kostnaðinum sem yrði endurgreitt þegar flutt væri út, sveitarfélögin stæðu undir 14 prósentum í formi lóða og gatnagerðargjalda en ný húsnæðisveðlánastofnun eða húsnæðislánafélög lánuðu 84 prósent.

Framlag ríkisins fælist í niðurgreiðslu vaxta af lánum þannig að greiðsla íbúanna yrði föst.

„Við teljum að það eigi ekki að líta á það sem félagslegt vandamál að fólk þurfi að fara til félagsþjónustu sveitarfélaga við það eitt að fá aðstoð vegna húsnæðismála. Vaxtabótakerfið er ekki þannig byggt upp að menn þurfi að sækja um aðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga. Og þannig á það heldur ekki að vera varðandi þessi úrræði í húsnæðismálum," segir Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins.

Lagt er til að kerfið verði á forræði sveitarfélaganna sem geti ráðstafað hluta íbúðanna til þeirra sem þurfa félagslega aðstoð.

Miðað við meðaltals markaðsleigu í dag gæti leiga lækkað úr 135 þúsund krónum á mánuði í 105 þúsund og farið í 83 þúsund með húsaleigubótum. Þannig myndi leiga sem hlutfall af tekjum geta farið úr 47 prósentum hjá einhleypingi niður í 24 prósent, hjá einstæðu foreldri úr 33 prósentum í 21 prósent og hjá hjónum með tvö börn úr 31 prósenti í 23 prósent.

„Við erum að leggja það til að lagt verði af stað með því að byggja eða kaupa þúsund íbúðir á ári næstu fimm árin og síðan eftir það 600 íbúðir á ári,“ segir Gylfi.

Kerfið yrði sjálfbært eftir um 40 ár og gæti staðið undir nýbyggingum á félagslegu leiguhúsnæði en kostnaður ríkisins við þetta á 40 árum væri umtalsvert minni en boðaðar skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar.

„En það er alveg ljóst að við munum fylgja þessu mjög fast eftir. Við teljum að það verði ekki lengur dregið að koma til móts við þennan hóp bæði okkar félagsmanna og landsmanna sem er í mestum vanda í húsnæðismálum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×